Í stuttum Facebook-pistli hvetur Páll á fyrrum félaga sína í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að „fagna hóglega“ nýrri viðbót, og vísar þar til Einræðna Starkaðar eftir Einar Benediktsson.
Þó Birgir sé hvergi nefndur á nafn í færslunni má lesa á milli línanna um hvern er rætt.
„Nú skora ég á fyrrum félaga mína í þingflokki Sjálfstæðismanna að “fagna…hóglega” nýrri viðbót. Aðdragandinn er afskræming á lýðræðinu,“ skrifar Páll.
Fleiri hafa gagnrýnt vistaskipti Birgis, hvort sem um er að ræða Miðflokks- eða Sjálfstæðismenn. Þannig hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagt að hann telji um misheppnað ráðabrugg hjá sjálfstæðismönnum að ræða, sem hafi haft það lokatakmark að þurrka út þingflokk Miðflokksins, en mistekist.
Þá hefur Sigmundur sagt að skýringar Birgis, um að vistaskiptin tengist hinu svokallaða Klaustursmáli frá 2018, haldi engu vatni.
Þá hefur formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, gagnrýnt málið og sagst telja að lítið sé gert úr prófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins og vilja kjósenda hans, þar sem Birgir hafi ekki atkvæði kjósenda flokksins sem hann nú tilheyrir á bak við sig.