Steindi er með mikla söfnunaráráttu og segist hann eiga erfitt með að losa sig við dót úr geymslunni. Hann á því dágott safn af svokölluðum Pox-myndum sem inniheldur meðal annars myndir af Tryggva Guðmundssyni, Daníel Ágústi og Magga Scheving.
„Það er fullt af fólki sem veit ekki hvað þetta er,“ segir Steindi og viðurkennir Auddi að hann sé einn af þeim.
Steindi útskýrir því að hér sé um að ræða eins konar spil sem snýst um að skora á aðra Pox-spilara og eiga þannig tækifæri á því að geta eignast Pox-myndir hins spilarans.
„Þú varst að labba í götunni þinni og bara „Hey Árni, viltu poxa?“ Þetta var smá attitude og þú varst með pox-boxið svona hangandi í beltinu og þá opnaðirðu boxið, settir út og þið poxuðuð. Þetta fór stundum þannig að fólk grét sko,“ útskýrir Steindi.
Þeir saklausu voru að poxa
Samkvæmt Steinda var Pox mikið æði þegar hann var ungur en þeir Auddi og Egill kannast ekki við það. Steindi segist hafa poxað mikið í kringum árið 1998.
„Þá var ég bara að rúnta á Hyundai Coupe á Króknum með stelpur aftur í sko,“ segir Auddi og Egill tekur undir það: „Já við vorum í sleik á meðan hann var að poxa.“
Hér fyrir ofan má sjá Hoarder horn Steinda þar sem hann útskýrir einnig svokallað Poison-bragð sem nota má til þess að klekkja á mótspilaranum.
Steindi á verulega erfitt með að henda hlutum og draslhrúgan stækkar í geymslunni með hverju árinu. Dagskrárliðurinn snýst um að Steindi kemur með allskyns dót að heiman, gamlar tölvur, körfuboltamyndir, Garbage Pail Kids myndir eða bara skrýtnar styttur.

Blökastið er áskriftarhlaðvarp með Audda, Steinda og Agli úr útvarpsþættinum FM95BLÖ. Nýir þættir koma út á hverjum þriðjudegi, ásamt skemmtilegu aukaefni eins og reglulegum sjónvarpsþáttum. Nánar á FM95BLO.is.