„Arctic Circle kallar á athygli okkar og tíma í dag,“ segir hann en staðfestir þó að formennirnir muni hittast aftur á morgun til að halda viðræðunum áfram.
Ljóst er að þau eru ekki mikið að flýta sér, enda ekki endilega þörf á því fyrir ríkisstjórn sem heldur þingmeirihluta eftir kosningar.
Síðustu daga hefur borið á nokkrum ágreiningsmálum í viðræðunum en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði við fréttastofu í gær að helstu verkefni næstu daga væri að ná flokkunum saman um aðgerðir í loftslags- og félagsmálum.
Hálendisþjóðgarður Vinstri grænna, sem var kveðið á um í síðasta stjórnarsáttmála, varð svo mjög umdeildur meðal framsóknar- og sjálfstæðismanna undir lok kjörtímabilsins en Katrín sagði við fréttastofu í gær að Vinstri græn myndu áfram halda því máli til streitu í viðræðunum.
Formennirnir hafa þá nefnt orkumálin sem ágreiningsmál við fréttastofu.