Þau eru meðal viðmælenda í þættinum Um land allt á Stöð 2. Sigurður ákveður að taka sér smápásu frá heyskapnum þegar hann sér eiginkonuna koma niður á tún. Hildur er búin að gefa ferðamönnunum á Grásteini morgunverð og ákveður að færa eiginmanninum kaffisopa út á tún.

Við spyrjum hvort hún stjani svona alltaf við hann:
„Lykillinn að góðu hjónabandi,“ svarar Sigurður.
„Það verður að minna hann á af hverju hann elskar mig,“ svarar Hildur.

Í þessum seinni þætti af tveimur um Þistilfjörð förum við með Steingrími J. Sigfússyni um sveitina. Púlsinn er tekinn á sauðfjárbúskapnum og jarðakaupum útlendings og heilsað upp á íbúa í ferðaþjónustu og sápugerð. Höfuðbólið Svalbarð er heimsótt, einnig forystufjársetrið og náttúruperlan Rauðanes skoðuð.
Þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 á mánudagskvöld klukkan 19:10. Hér er sýnishorn:
Í fyrri þættinum rifjaði Steingrímur upp æskuna á Gunnarsstöðum og stiklað var á stóru í viðburðaríkum ferli hans sem stjórnmálamanns. Hér má sjá kafla úr fyrri þættinum en hann er endursýndur á Stöð 2 í dag, sunnudag, klukkan 15:20.