Fótbolti

Kvikmyndatökumenn með Koeman í bílnum sem var ráðist á

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronald Koeman öskrar á leikmenn Barcelona.
Ronald Koeman öskrar á leikmenn Barcelona. Getty/Pedro Salado

Barcelona hefur fordæmt hegðun stuðningsmanna sinna gagnvart þjálfaranum Ronald Koeman eftir tap á heimavelli á móti Real Madrid í El Clasico um helgina.

Fjöldi fólks réðst að bíl Ronald Koeman og lét öllum illum látum en hann hefur mátt þola mikla gagnrýni á tíma sínum sem þjálfari liðsins. Barcelona sagði í harðorðari yfirlýsingu að atvikið hafi verið ofbeldisfullt og til skammar fyrir félagið.

Koeman hefur einnig tjáð sig um atvikið og hann hefur öll sönnunargögn um það sem gekk þarna á. Koeman var að reyna að komast í burtu frá Nývangi á bílnum sínum.

„Ég var með eiginkonu minni en það var líka fólk með okkur í bílnum sem var að kvikmynda allt (fyrir heimildarmynd) svo að ég er með upptöku af öllu,“ sagði Ronald Koeman á blaðamannafundi í dag. ESPN segir frá.

„Það var einn gæi í Arsenal treyju fyrir aftan bílinn. Þið sáuð hann, ekki satt?,“ spurði Koeman.

„Ég var ekki hræddur en það var þarna tímapunktur sem ég var að hugsa um að fara út úr bílnum en það var betra að gera það ekki. Það var fullt af fólki að taka upp og að búa til Tik-Tok myndbönd og þau vilja að þú blandir þér í málin,“ sagði Koeman.

„Ég held að það sé engin lausn í boði fyrir félagið. Fyrir mitt leiti þá er þetta samfélagsvandamál, þekkingarleysi og menntunarleysi hjá fólki sem hafa hvorki siðgæði né gildi,“ sagði Koeman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×