Baldvin Þór kom í mark á 24:05,7 mínútum og er þetta hans fyrsti svæðismeistaratitill í þessari grein.
Það eru líka fjögur ár síðan að Eastern Michigan háskólinn átti svæðismeistara í víðavangshlaupi og þá var það einmitt Íslendingurinn Hlynur Andrésson sem fagnaði þá sigri.
„Ég vissi að þetta myndi vera á milli mín og nokkra aðra fyrir sigurinn. Hlaupið gekk mjög vel, leið bara vel og það var geðveik stemning af því að þetta var á heimavelli,“ hefur heimasíða Frjálsíþróttsambands Íslands eftir Baldvini.
Baldvin kom í mark tæpum þremur sekúndum á undan Josh Park frá Ohio skólanum en þriðji var síðan Toby Gualter úr Eastern Michigan háskólanum.
Karlalið Eastern Michigan varð einnig svæðismeistarar þriðja árið í röð. Næst á dagskrá hjá Baldvini er Regionals mótið eftir tvær vikur.
Baldvin Þór á Íslandsmetið í bæði 1500 metra og 3000 metra hlaupi og átti metið líka um tíma í 5000 metra hlaupi.