Á síðustu fjórum vikum hefur smituðum í Evrópu fjölgað um 55 prósent.
Yfirmaður stofnunarinnar í Evrópu, Hans Kluge, segir að þar á bæ óttist menn að um 500 þúsund manns til viðbótar muni látast af völdum Covid fram í febrúar á næsta ári.
Kluge segir helstu ástæðu uppsveiflunar í faraldrinum vera þá að ekki hafi tekist að bólusetja nægilega hátt hlutfall fólks. Í Frakklandi og Þýskalandi til að mynda er bólusetningarhlutfallið aðeins 68 og 66 prósent.
Hlutfallið er svo enn lægra í Austur-Evrópu og til að mynda eru aðeins rétt rúm 30 Rússa búnir að fá bóluefni. Önnur ástæða fyrir upptaktinum segir Kluge að sé hve mjög hafi verið slakað á öllum sóttvarnaaðgerðum.
Í Bretlandi greindust fleiri en 37 þúsund einstaklingar með Covid-19 í gær og næstum 34 þúsund í Þýskalandi. Þar létust 165 síðasta sólahring en á sama tíma fyrir viku voru dauðsföllin 126.
Stjórnvöld í Hollandi greindu frá því í vikunni að grímuskylda og fjarlægðarmörk yrðu tekin aftur upp eftir að sjúkrahúsinnlögnum fjölgaði um 31 prósent á einni viku. Þá hefur neyðarástandi verið lýst yfir í Lettlandi.