Fótbolti

Brighton og Newcastle skildu jöfn eftir hundrað mínútna leik

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Robert Sanchez, markvörður Brighton, fékk að líta rauða spjaldið.
Robert Sanchez, markvörður Brighton, fékk að líta rauða spjaldið. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Brighton og Newcastle gerðu jafntefli, 1-1, í ensku úrvalsdeildinni í kvöld í fjörugum leik þar sem VAR lék stórt hlutverk.

Fyrir leikinn var ljóst að bæði liðin vildi stigin þrjú. Newcastle sat á botninum eftir sigur Norwich fyrr í dag en Brighton gat með sigri lyft sér upp fyrir Manchester United og komist upp í fimmta sætið.

Það voru leikmenn Brighton sem byrjuðu leikinn betur og áttu mun hættulegri sóknir. Karl Darlow, markvörður Newcastle, þurfti margoft að taka á honum stóra sínum en það var svo á 24. mínútu að Leandro Trossard var felldur í teignum. VAR tók sér langann tíma að taka ákvörðun en á endanum var það dómari leiksins, David Coote, sem tók ákvörðun. Vítaspyrna dæmd og Trossard skoraði sjálfur úr henni.

Í kjölfarið þyngdist róðurinn fyrir Newcastle en liðinu tókst að halda út fram að hálfleik án þess að fá á sig annað mark. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Brighton. Brighton var svo sterkari aðilinn í síðari hálfleik og því kom það nokkuð á óvart þegar Newcastle jafnaði. Eftir darraðadans barst boltinn á Isaac Hayden sem kom boltanum í netið, 1-1.

Það sauð svo allt upp úr í uppbótartíma. Callum Wilson, framherji Newcastle, slapp í gegn en féll til jarðar eftir viðskipti við Robert Sanchez, markvörð Brighton. Eftir langa VAR pásu þá rak David Coote Sanchez af velli og Lewis Dunk fór út vörninni og í markið. Dunk fékk þó ekki á sig mark og þar við sat.

Newcastle er eftir leikinn í 19. sæti með einungis fimm stig. Brighton er á fínum stað í töflunni með 17 stig í sjötta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×