Fótbolti

Rekinn eftir fyrsta sigurinn

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Daniel Farke þjálfari Norwich ásamt fyrirliða liðsins, Grant Hanley.
Daniel Farke þjálfari Norwich ásamt fyrirliða liðsins, Grant Hanley. EPA-EFE/ANDREW YATES

Daniel Farke, þjálfari Norwich City í ensku úrvalsdeildinni, var rekinn í kjölfarið á fyrsta sigri liðsins í deildinni. Daniel hefur verið gagnrýndur mikið enda hafa Kanarífuglarnir verið í miklum vandræðum í upphafi tímabilsins.

Farke hefur verið að þjálfa liðið síðan árið 2017 og hefur liðið tvisvar sinnum farið upp í úrvalsdeildina undir hans stjórn. Tímabilið 2019 sigraði liðið Championship deildina en féll árið eftir. Liðið fór svo strax aftur upp eftir að hafa sigrað Championship deildina með yfirburðum.

Síðan þá hefur lítið gengið. Eftir ellefu umferðir er liðið með einungis fimm stig og hafði, þangað til í dag, ekki unnið einn einasta leik og oftar en ekki verið gjörsigrað í sínum leikjum. Undarlegt þykir þó að þjálfarinn hafi verið rekinn eftir sigurleik, en í viðtali eftir leikinn sagði Farke ekkert um stöðu sína hjá liðinu.

Stuart Webber, framkvæmdastjóri Norwich, sagði í viðtali að stjórn liðsins væri á því að nú væri góður tímapunktur til þess að breyta til. Farke hefur stýrt Norwich í 49 leikjum í úrvalsdeildinni en hefur einungis unnið sex þeirra.

Það er kannski ágætt fyrir Norwich að nú er landsleikjahlé framundan og getur því þjálfaraleitin farið nokkuð óáreitt fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×