Innlent

Sprengi­sandur: Staða far­aldursins, stjórnar­myndunar­við­ræður og samningastapp tal­meina­fræðinga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sprengisandur hefst klukkan 10.
Sprengisandur hefst klukkan 10.

Margt verður til umræðu í þjóðmálaþættinum Sprengisandi í dag en þátturinn er sem fyrr á Bylgjunni klukkan tíu. Kristján Kristjánsson mun byrja á því að ræða við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni til að ræða stöðu faraldursins, sem hefur verið í mikilli uppsveiflu undanfarna viku. 

Þá munu Auður Anna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar og Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar ræða lofstlagsmálin. Heiðar segir tillögur Lanverndar í orkumálum í tilefni COP26 ráðstefnunnar efnahagslegt harakiri. Landvernd vill harðari aðgerðir af stjórnvalda hálfu. 

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins mætir í þáttinn og verður spurður spjörunum úr um stjórnarmyndunarviðræður, sem hafa staðið yfir í sex vikur. Sigurður Ingi er einn þriggja formanna flokka sem hafa verið að semja um framtíð ríkisstjórnarsamstarfsins bak við luktar dyr en nú hillir í nýja stjórn. 

Ragnheiður Dagný Bjarnadóttir og Linda Björk Markúsardóttir talmeinafræðingar loka þættinum. Þær eru báðar sjálfstætt starfandi og er hjá þeim báðum tveggja til þriggja ára biðlisti. Félag talmeinafræðinga hefur staðið í áralöngu samningastappi við Sjúkratryggingar Íslands um greiðslur og fyrirkomulag þjónustu en ekkert hreyfist í þeirri samningagerð. 

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×