Cleo Smith hvarf úr tjaldi foreldra sinna á meðan fjölskylda hennar svaf á tjaldsvæði í Vestur-Ástralíu 16. október. Lögregluþjónar fundu Cleo á heimili 36 ára gamals manns í bænum Carnarvon, heimabæ hennar, á miðvikudag í síðustu viku, átján dögum eftir að henni var rænt. Hann er nú í hámarksöryggisfangelsi í Perth.
Rannsóknarlögreglumenn héldu aftur til Carnarvon í gær. Óskuðu þeir eftir upplýsingum frá íbúum sem kynnu að hafa verið í sambandi við mannræningjann.
Upphaflega taldi lögregla að hann hefði verið einn að verki. Fjölmiðlar í Ástralíu hafa greint frá því að lögregla rannsaki hvort að ónefnd kona hafi hjálpað mannræningjanum að hugsa um Cleo, þar á meðal með því að klæða hana og greiða, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
„Í þessari viku einbeitum við okkur að því að ganga úr skugga um hvort að nokkur annar hafi verið í spilinu. Þess vegna erum við enn hér,“ sagði Cameron Blaine, yfirrannsóknarlögreglumaður, við fjölmiðla við komuna til bæjarins.
Mannræninginn er ákærður fyrir að taka barn með valdi eða blekkingum og fleiri brot. Hann á næst að koma fyrir dómara í desember.