Fótbolti

Höfðu mikinn áhuga á stöðu veirunnar á Íslandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blikakonur á æfingu í Kharkiv í gær.
Blikakonur á æfingu í Kharkiv í gær. getty/Vyacheslav Madiyevskyy

Úkraínskir blaðamenn höfðu mikinn áhuga á stöðu kórónuveirufaraldursins á Íslandi og hvort leikmenn Breiðabliks voru bólusettir á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Kharkiv í Meistaradeild Evrópu.

Kharkiv og Breiðablik eigast við í 3. umferð riðlakeppninnar klukkan 17:45. Bæði lið eru án stiga í B-riðli.

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, og Selma Sól Magnúsdóttir sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Kharkiv í gær. Þau voru meðal annars spurð út í kórónuveirufaraldurinn og stöðu hans hér á landi.

„Allir í liðinu eru bólusettir. Nokkrar hafa fengið veiruna en eru bólusettar. Allir fá fría bólusetningu,“ sagði Selma Sól.

Selma Sól Magnúsdóttir á blaðamannafundinum í gær.getty/Vyacheslav Madiyevskyy

„Það er mjög hátt hlutfall bólusettra á Íslandi og mjög fáir eru óbólusettir. En fjöldi smita eru upp og niður eins og í Evrópu. Undanfarna daga hafa tölurnar verið á uppleið svo við þurfum að fara varlega,“ sagði Ásmundur sem stýrir Breiðabliki í annað sinn í kvöld.

Seinni leikur Breiðabliks og Kharkiv fer fram á Kópavogsvelli í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×