Umræðan

Íbúðamarkaðurinn okkar

Kristrún Frostadóttir skrifar

Fjármagn stýrir miklu. „Cash is king“ er stundum sagt á enskunni. Ein stærsta yfirsjónin í aðdraganda kreppunnar 2008 á heimsvísu var hve lítið hagfræðilíkön tóku mið af áhrifum fjármálakerfisins á hagkerfið. Nú er talað um fjármálasveiflu, ekki bara hagsveiflu. 

Eftir síðustu krísu hægðist verulega á byggingu íbúða. Vinnuvélar voru fluttar úr landi til að greiða upp skuldir, gera þurfti upp efnahagsreikninga byggingarfyrirtækja og áhættufælni í fjármálakerfinu var mikil. Svo snerist sveiflan við. Árlegur vöxtur í útlánum til byggingargeirans var 20% frá 2015-19. 

Þegar nýjar íbúðir á markaðnum voru í hámarki 2019 gaf fjármálastöðugleikasvið Seðlabankans til kynna að slíkur útlánavöxtur til fyrirtækja væri ósjálfbær. Fjármálasveiflan of ýkt. Ári síðar tóku við aðgerðir sem vísuðu gríðarlegu fjármagni í gegnum bankakerfið inn á kaupendahliðina á fasteignamarkaðnum.

Það sér hver maður að hér er ójafnvægi í fjármagnsflæði inn á fasteignamarkaðinn.

Hraður útlánavöxtur fyrst á framboðshliðinni, til byggingargeirans, sem varað er við. Svo tekur við hraður útlánavöxtur til kaupenda, langt umfram það sem seigfljótandi byggingarhliðin gat nokkurn tímann ráðið við. Seðlabankinn hafði ekki áhyggjur af þeim vexti því eiginfjárstaða heimila fyrir þessa kreppu var sterk miðað við 2008. En hvað með heildarjafnvægið á markaðnum?

„Animal spirits“ segja sumir. Svona virkar markaðurinn. En húsnæði er ekki eins og hver önnur eign á markaði. Við erum að reka samfélag hérna. Markmiðið er ekki sem mest afskiptaleysi. Heldur að tryggja að leikreglurnar sem skapa markaðinn séu í takt við þörf og framþróun samfélagsins.

Það eru tvær leiðir til að horfa á hagstjórn í þessu samhengi. Það er hægt að grípa inn í núverandi markaðsgerð – leiðrétta markaðsbresti líkt og Seðlabankinn gerir með stökum inngripum á gjaldeyrismarkaði eða beitingu þjóðhagsvarúðartækja. Eða ríkið getur mótað markaðsumhverfið með betri hætti í grunninn svo það reyni minna á inngrip. Niðurstöður núverandi ramma markaðshagkerfisins eru nefnilega hvorki hlutlausar né náttúrulegar. Þær eru á okkar eigin ábyrgð. Um þetta snúast stjórnmál.

Við höfum hins vegar ekki efni á að endurnýta hugmyndir um lausnir á húsnæðismarkaði sem ýkja fjármálasveifluna. Hið öfuga þarf til. Stöðugleika í aðgengi fjármagns í uppbyggingu sem fylgir þörf samfélagsins, ekki áhættufælni eða -sækni fjárfesta. Í þessu samhengi er gott að rifja upp söguna, nú þegar einn stjórnarflokkana hefur ítrekað talað fyrir útvíkkun á lánafyrirkomulagi til kaupenda með stuðningi ríkissjóðs.

„Upphaf áforma um 90% veðhlutfall lána Íbúðalánasjóðs (eða 90% lán eins og þau voru almennt kölluð) má rekja til kosningaloforðs Framsóknarflokksins fyrir alþingiskosningarnar 2003. Hærra veðhlutfall var í framhaldinu sett í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.“

Fór sem fór. Afleiðingarnar eru þekktar. Rannsóknarskýrsla Alþingis um lánveitingar Íbúðalánasjóðs heldur svo áfram:

„Rétt er að undirstrika að hin mikla þátttaka hins almenna, ríkisrekna húsnæðislánakerfis í lánveitingum á almennum fasteignamarkaði er – hvað í fljótu bragði verður séð – einstök í evrópsku og líklega einnig alþjóðlegu tilliti.“

Þátttaka ríkisins á nefnilega að vera á uppbyggingarhliðinni. Þetta er eitt stærsta efnahagsmál okkar tíma. Við verðum að fara að líta á húsnæði sem grunninnviði. Í því samhengi er fullkomlega eðlilegt að ríkið sé með langtímaáætlun um veitingu fjármagns til niðurgreiðslu á byggingu húsnæðis í samfélagslegum tilgangi. Til að halda niðri byggingarkostnaði á lægri enda markaðarins og fyrir ungt fólk, sem kemur í veg fyrir spennu á leigumarkaði sem svo lekur yfir á kaupendamarkaðinn og eykur kostnað víða í samfélaginu. Stöðug fjármögnun sem skapar akkeri á markaðnum, fylgir ekki hag- eða fjármálasveiflunni, en getur unnið á móti henni þegar þörf er á.

„Aðgerðir fjármálastöðugleika“ mætti flokka undir inngrip vegna markaðsbrests. Gerð er tilraun til að sníða öfgarnar af sveiflunni. En Seðlabankinn bregst við markaðsgerðinni sem ríkið skapar. Embættismenn hafa ekki umboð til að breyta grunnþáttum markaðarins. Það er stjórnmálanna að setja leikreglurnar sem móta markaðinn í grunninn. Hinn frjálsi markaður er nefnilega ekki fenginn af himnum ofan.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Umræðan

Sjá meira


×