Nú þegar Bandaríkin hafa handtekið Nicolás Maduro og flutt hann úr landi er gagnlegt að staldra við og skoða fjögur söguleg fordæmi. Enginn atburður samtímans er nákvæm endurtekning fortíðarinnar. En með því að rifja upp söguna má greina þætti nútímans sem ella myndu hverfa í áróðri eða tilfinningahita.
1. Afskipti Bandaríkjanna í Rómönsku Ameríku
Á tímum kalda stríðsins – og raunar löngu fyrr – gripu Bandaríkin ítrekað inn í stjórnmál Mið- og Suður-Ameríku og gerðu þar með tilkall til óskráðs réttar til að velja leiðtoga ríkja. Í mörgum tilvikum voru þessi afskipti beinlínis ætluð til að hnekkja niðurstöðum kosninga með því að koma kjörnum leiðtogum eða ríkisstjórnum frá og setja í staðinn fólk sem naut stuðnings ráðamanna í Washington.
Á tímum kalda stríðsins voru slík inngrip klædd í búning lýðræðisáróðurs. Rökin voru þau að hvað sem Bandaríkin gerðu þá hlyti það að miða að því að stöðva uppgang kommúnisma – og kommúnismi væri andlýðræðislegur.
Nú er ekkert slíkt yfirvarp um að markmiðið sé að koma á lýðræði. Nicolás Maduro og samverkamenn hans stálu forsetakosningunum í Venesúela árið 2024, en sá raunverulegi glæpur er ekki það sem fólk Trumps segist vera að refsa fyrir. Þess í stað kjósa þau að byggja málatilbúnað sinn á að mestu tilbúinni hugmynd um „fíkniefnahryðjuverk“. Venesúela á löglega kjörinn forseta, Edmundo González, en ekkert bendir til þess að hann skipti nokkru máli í áætlunum Trumps. Hann gerir lítið úr hinum hugrakka stjórnarandstæðingi Maríu Machado, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels, og kallar hana „ágæta konu“ sem skorti almennan stuðning (Þetta er eftir að hún tileinkaði honum verðlaunin – og vert er að muna gullnu regluna í samskiptum við Trump: hann mun alltaf valda vonbrigðum).
Í ljósi þess að Bandaríkin hafa núna handsamað Maduro er rétt að rifja upp að þau höfðu aðeins fjórum vikum áður aðstoðað Maríu Machado að komast úr landi. Þá virtist aðgerðin ætluð til að gera henni kleift að sækja afhendingu Nóbelsverðlaunanna í Noregi. Nú lítur hún út fyrir að hafa verið tilraun Bandaríkjastjórnar til að fjarlægja keppinaut um völd og ryðja brautina fyrir bandaríska heimsvaldastefnu sem beinist fremur að Venesúelabúum heldur en Maduro sjálfum.
Nú er ekkert slíkt yfirvarp um að markmiðið sé að koma á lýðræði. Nicolás Maduro og samverkamenn hans stálu forsetakosningunum í Venesúela árið 2024, en sá raunverulegi glæpur er ekki það sem fólk Trumps segist vera að refsa fyrir.
Þessi heimsvaldastefna virðist þó ekki vera mjög vel ígrunduð. Á sínum tíma völdu bandarísk stjórnvöld leiðtoga í Rómönsku Ameríku sem studdu hagsmuni bandarískra fyrirtækja. Á yfirborðinu virðist hið sama vera uppi á teningnum nú. Trump býður bandarískum fyrirtækjum aðgang að olíu Venesúela og stillir mögulegum hagnaði upp sem skýringu á allri aðgerðinni. En til skamms tíma er lítinn hagnað að hafa úr olíuvinnslu í Venesúela og til lengri tíma er ljóst að þörf er á verulegri fjárfestingu. Slíkt krefst hins vegar pólitísks stöðugleika. Við fyrstu sýn virðist sem olíufélögin hafi trú á þeirri þróun.
Það er margt sem mælir með lýðræði. Ein sterkasta röksemdin er samfella: að það bjóði upp á leið út úr hörmungum. Augljósasta skrefið í Venesúela nú væri því að efna til kosninga.
2. Seinna Íraksstríðið
Innrásin í Írak árið 2003 markaði þáttaskil fyrir vald og siðferðislega stöðu Bandaríkjanna innan alþjóðakerfisins. Hún kostaði hundruð þúsunda Íraka lífið. Hún byggðist á lygum sem grófu undan trúverðugleika Bandaríkjanna og veiktu áhrif þeirra. Hún kostaði gífurlega fjármuni og dró athygli frá Bandaríkjunum sem opnaði um leið glugga fyrir Kína til að gera sig meira gildandi á alþjóðavettvangi.
Innrásin var reist á þeirri hugmynd að með því að fjarlægja vondar stofnanir og vondan mann mætti sjálfkrafa koma á betra stjórnarfyrirkomulagi. Bandaríkin höfðu gert afar takmarkaðar áætlanir um pólitíska framtíð Íraks. Bush-stjórnin ímyndaði sér að ósigur íraska hersins, brottrekstur einræðisherra og bann við stjórnmálaflokki myndi duga til að skapa skilyrði fyrir lýðræði.
Í þetta sinn er ekki einu sinni talað um lýðræði en svipuð trúgirni er engu að síður til staðar. Með því einu að fjarlægja „vondan valdhafa“, Maduro, muni fyrirsjáanlega skapast aðstæður fyrir umbótum – Venesúela sem Bandaríkin „stýra“. En í Venesúela hefur herinn ekki verið sigraður og stjórn Maduro sýnir engin merki um að hún ætli að ráðast í raunverulegar breytingar.
Hernámslið Bandaríkjanna í Írak neyddist til – þótt það væri vandræðalegt að viðurkenna það opinberlega – að vinna með þeim öflum sem þau sögðust hafa steypt af stóli. Í Írak tók þessi þróun mörg ár; í Venesúela tók hún klukkustundir. Að því marki sem bandarísk áætlun er til staðar virðist hún byggjast á þeirri hugmynd að allir í Venesúela muni nú gera það sem Bandaríkin vilja, þar á meðal stjórn Madúros, sem enn situr við völd.
Í þetta sinn er ekki einu sinni talað um lýðræði en svipuð trúgirni er engu að síður til staðar. Með því einu að fjarlægja „vondan valdhafa“, Maduro, muni fyrirsjáanlega skapast aðstæður fyrir umbótum.
Trump segir að Delcy Rodríguez, sú manneskja sem Maduro taldi varaforseta sinn, geti haldið utan um stjórnartaumana fyrir hönd Bandaríkjanna. Hún situr í embætti vegna stolinna kosninga; nú virðist henni boðin bæði vernd bandarísks hervalds og stuðningur leyniþjónustu Maduro og borgaralegra glæpagengja. Rodríguez sjálf segir að aðgerðin hafi verið ólögleg og virðist trúa því að hún hafi verið framkvæmd í þágu alþjóðlegs gyðingasamsæris.
Önnur sterk rök fyrir lýðræði er lögmæti. Stjórn Maduro heldur völdum með ofbeldi og ógnunum. Leifar hennar verða ekki lögmætari við það eitt að njóta stuðnings bandarísks ofbeldis og hótana.
3. Innrás Rússlands í Úkraínu
Það var athyglisvert að heyra Donald Trump lýsa handtöku Bandaríkjastjórnar á Maduro sem „óvenjulegri hernaðaraðgerð“, enda er það nánast sama orðalag og Vladimír Pútín notaði í ræðu sinni þegar hann tilkynnti innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022. Maður veltir því fyrir sér hvaða hugtak túlkar hafi notað í öllum þeim löngu símtölum sem Trump hefur átt við Pútín.
Við innrásina í Úkraínu misbeitti Pútín meðvitað tungumáli laganna og hélt því fram að árásin væri réttlætanleg samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið var ekki tilraun til að renna lögmætum stoðum undir aðgerðina heldur að hæðast að alþjóðalögum. Rússland hefur lagt sig mjög fram um að skapa heim þar sem öll ríki líta á alþjóðalög sem einhvern brandara. Bandarísk stjórnvöld gerðu enga tilraun til að réttlæta hernaðaraðgerð sína gagnvart Maduro með vísan til alþjóðlaga sem er augljós hugmyndafræðilegur sigur fyrir Rússland – jafnvel þótt ráðamenn í Kreml kunni að vera óánægðir með afleiðingarnar í þessu tilviki.
Það sem er síður augljóst, en kann að hafa meiri áhrif, er að skeytingarleysið gagnvart lögum er einnig sigur fyrir Kína. Fram til þessa hafa það verið Rússar sem unnið hafa „skítverkin“ í tilraunum Kína til að endurmóta alþjóðakerfið í átt að einföldu valdakerfi þar sem einræðisherrar beita stórveldapólitík til að ná fram sínum eigin hagsmunum. Nú eru Bandaríkin sjálf farin að leggja sitt af mörkum til slíkrar heimsmyndar.
Eins og Pútín gagnvart Úkraínu fer Trump ekki leynt með þann ásetning sinn að hann vilji „stýra“ Venesúela. Og að einu leyti hefur hann verið farsælli en Pútín. Innrás Rússa árið 2022 fól í sér fjölmargar tilraunir til að ráða Volodymyr ZelenskyÚkraínuforseta af dögum án árangurs. Bandaríkjunum tókst hins vegar að handsama Maduro.
Fram til þessa hafa það verið Rússar sem unnið hafa „skítverkin“ í tilraunum Kína til að endurmóta alþjóðakerfið í átt að einföldu valdakerfi þar sem einræðisherrar beita stórveldapólitík til að ná fram sínum eigin hagsmunum.
Það er vert er að undirstrika að aðgerð Bandaríkjanna var í eðli sínu leyniþjónustuaðgerð með hernaðarlegum stuðningi. Að því er best verður séð var hún vandlega undirbúin af hálfu CIA, framkvæmd með loftárásum á loftvarnakerfi Venesúela til að gera herþyrlum kleift að fara inn og út úr landinu. Trump hefur lýst þessu sem „árás sem fólk hefur ekki séð síðan í síðari heimsstyrjöld“, sem er fáránleg fullyrðing. Allur tónn blaðamannafundar hans í kjölfarið bar þess merki að herinn hefði framkvæmt töfrabragð og sagan væri þar með búin. En hvað gerist þegar í ljós kemur að hún er það ekki?
Þriðja sterka röksemdin fyrir lýðræði er fyrirsjáanleiki. Pútín varð hissa þegar Úkraínumenn veittu innrásinni mótspyrnu og neyddist til að halda henni áfram með gífurlegum og tilgangslausum kostnaði fyrir þjóð sína. Ef það verður ljóst – eins og óhjákvæmilega hlýtur að verða – að Bandaríkin handsömuðu Maduro til þess eins að koma á sinni eigin útgáfu af Maduro, munu þau mæta andspyrnu af ýmsum toga og stór hluti hennar verður ófyrirsjáanlegur. Bandaríkin eru nú komin inn í stigvaxandi atburðarrás þar sem hver óvænt uppákoma í öðru landi kallar á sífellt harðari hernaðarviðbrögð. Leiðin til að koma í veg fyrir óreiðu og dráp er að halda kosningar (eða, í þessu tilviki, að viðurkenna þann sem vann síðustu forsetakosningar í Venesúela sem forseta).
4. Fasísku stríðin
Ríki undir yfirráðum fasista voru sigruð árið 1945 en á meðan þau voru við völd var það stjórnarfyrirkomulag réttlætt með stríði. Fasistar héldu því fram að einræðisstjórnir þeirra væru nauðsynlegar vegna þess að pólitískir andstæðingar væru í reynd handbendi erlendra óvina og alþjóðlegra samsærisafla. Þýskaland, Ítalía og Rúmenía hófu stríð til að samræma ytri og innri óvin þannig að hann væri einn og hinn sami. Það var mun auðveldara að kúga óvini ríkisins innanlands þegar þjóðin var í stríði.
Enginn getur vitað með vissu hvað Trump hugsar en skynsamlegt er að ætla að markmið hans með því að fjarlægja Maduro hafi fyrst og fremst verið vegna pólitískra hagsmuna innanlands. Ákærurnar gegn Maduro snúast um fíkniefni fremur en alvarlegri glæpi stjórnar hans, sem er auðveldara er að sanna, svo sem aftökur án dóms og laga og pyntingar. Sú áhersla Bandaríkjastjórnar í málatilbúnaðinum þjónar þeim pólitíska tilgangi að sameina ytri og innri óvin. Þar sem fíkniefnaviðskipti tengjast bæði erlendum og innlendum aðilum geta liðsmenn Trumps haldið því fram að pólitískir andstæðingar þeirra séu í þjónustu alþjóðlegra samsærisafla. Líkt og á við um innflytjendamál gæti „stríð gegn fíkniefnum“ í anda Trumps verið notað til að byggja upp vopnaðar öryggissveitir (e. paramilitary) heima fyrir á borð við ICE.
Trump og ráðgjafar hans virðast vilja pólitískan ávinning stríðs án þess að þurfa í raun að heyja það. Þeir vilja stuttu leiðina að fasísku stjórnarfari – lýsa strax yfir miklum sigri og nota samfélagsmiðla til að ráðast gegn óvinum heima fyrir. En fasismi krefst ekki skyndiaðgerða, heldur raunverulegra átaka sem setja almenning í hættu og draga hann þannig inn í ofbeldið. Jafnvel þótt stuðningur við aðgerðina í Venesúela sé til staðar, sem er alls óvíst, mun hún gleymast á fáeinum dögum – nema hún verði stigmögnuð.
Pútín var reiðubúinn að feta slóð fasista fjórða áratugarins inn í allsherjarstríð samhliða fasísku stjórnarfari heima fyrir. Trump myndi eflaust vilja þá niðurstöðu en ólíklegt er að hann sé viljugur eða fær um að ganga svo langt.
Trump og ráðgjafar hans virðast vilja pólitískan ávinning stríðs án þess að þurfa í raun að heyja það. Þeir vilja stuttu leiðina að fasísku stjórnarfari – lýsa strax yfir miklum sigri og nota samfélagsmiðla til að ráðast gegn óvinum heima fyrir.
Staða Trumps er veik heima fyrir og hægt er að stöðva hann ef pólitíska röksemdafærslan fyrir afskiptum af erlendum ríkjum er greind og snúið gegn honum. Þessi hernaðaraðgerð snýst fremur um stjórnarfarsbreytingarnar sem hafa orðið í Bandaríkjunum en nokkuð sem lýtur að Venesúela. Hún nær aðeins fram að ganga sem fasismi ef Bandaríkjamenn leyfa því að gerast. Ef blaðamenn og dómarar átta sig á orsakatengslunum munu slíkar hernaðaraðgerðir á erlendri grundu veikja fremur en hraða þróun í átt að stjórnarfari í Bandaríkjunum sem einkennist af valdboðsstefnu (e. authoritarianism). Og með nokkurri vinnu og heppni náum við að þrauka til næstu frjálsu kosninga.
Lokaröksemdin fyrir lýðræði er friður. Ef Venesúela gæti haldið kosningar nú, eða ef kjörinn forseti landsins gæti tekið við embætti, er ólíklegt að Bandaríkin hefðu nokkrar haldbærar kvartanir um fíkniefni eða annað. Ef bandarískt lýðræði væri heilbrigðara en það er værum við ekki komin á þennan stað. Forseti Bandaríkjanna er æðsti yfirmaður hersins, en það er þingið sem verður að heimila hvers kyns stríðsaðgerðir.
Tilgangurinn með því að rifja upp þessa fjóra atburði er ekki sá að halda því fram að sagan endurtaki sig, heldur að hún upplýsi. Hún hjálpar okkur að sjá handan við hornið, inn í mögulega framtíð. Hvert þessara dæma veitir vonandi gagnlegt sjónarhorn: að bandarísk heimsvaldastefna á sér langa sögu; að fjarlæga eitthvað eða einhvern leiðir ekki til fyrirsjáanlegra niðurstaðna; að það er ekki aðeins rangt að kasta fyrir róða alþjóðalögum heldur beinlínis skaðlegt; og að hernaðaraðgerðir erlendis geta í reynd snúist um stjórnarfarið heima fyrir. Það sem við sjáum getum við stöðvað; það sem við skiljum getum við breytt.
Lausleg þýðing á grein sem birtist eftir Timothy Snyder á vefsíðu hans sunnudaginn 4. janúar 2026.
Timothy Snyder er heimskunnur sagnfræðingur og þekktastur fyrir skrif sín um stjórnmálasögu tuttugu aldar með áherslu á málefni Rússlands og þeirra þjóða sem féllu undir áhrifasvæði Sovétríkjanna. Á meðal helstu verka Snyders eru bækurnar Bloodlands: Europe Between Hitler and Stalin, Black Earth: The Holocaust as History and Warning, On Tyranny: Twenty Lessons from Twentieth Century (hún var þýdd á íslensku), The Road to Unfreedom: Russia, Europe, America og On Freedom.
Snyder er prófessor í sagnfræði við háskólann í Toronto í Kanada en kenndi áður meðal annars við Yale háskólann í Bandaríkjunum á árunum 2017 til 2025.


