Reuters fréttaveitan segir Osechkin vera eftirlýstan samkvæmt upplýsingum á vef innanríkisráðuneytis Rússlands. Ekki sé þó vitað fyrir hvað hann sé eftirlýstur og hefur fyrirspurnum fréttaveitunnar ekki verið svarað.
„Enn einu sinni sýna þeir heiminum að þeir misnota völd þeirra og yfirráð,“ skrifaði Osechkin á Facebook um yfirvöld í Rússlandi. Hann segir þetta í annað sinn sem hann sé eftirlýstur í Rússlandi en Osechkin flutti til Frakklands árið 2015.
Tveir dagar eru síðan Gulagu birti ný myndbönd sem tekin voru í fangelsi í Saratov-héraði. Þau sýndu samkvæmt frétt Moscow Times grimmilegar pyntingar og nauðganir fanga.
Sjá einnig: Rússneskur ritstjóri sem flúði land eftirlýstur
Osechkin segist engu hafa stolið og að Gulagu hafi starfað innan laga Rússlands til að varpa ljósi á spillingu og pyntingar. Gulagu hafði fyrir þessa viku áður birt nokkur myndbönd úr fangelsum í Rússlandi þar sem verið var að pynta og nauðga föngum.

Myndefnið fengu samtökin frá Sergei Saveley, fyrrverandi fanga, sem smyglaði því úr fangelsi, samkvæmt frétt Moscow Times. Hann er forritari og á meðan hann sat inni starfaði hann við við viðhald á tölvukerfi fangelsisins sem hann afplánaði í.
Hann var fyrst ákærður vegna lekans en sú ákæra hefur verið látin niður falla.
Búið er að opna fimm sakamál í tengslum við Saratov-fangelsið og reka minnst átján starfsmenn, í kjölfar birtingar Gulagu.