Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og liðin héldust í hendur lengst af. Heimamenn í Westfalen virtust þó vera einu skrefi á undan og fóru með eins marks forystu inn í hálfleikinn, 12-11.
Enn var jafnt með liðunum í upphafi seinni hálfleiks og þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka var allt jafnt, 19-19.
Þá tóku liðsmenn Gummersbach við sér og náðu fljótt fjögurra marka forskoti. Liðið hélt því forskoti út leikinn og vann að lokum góðan fimm marka sigur, 26-31.
Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach og Hákon Daði Styrmisson tvö. Liðið er á toppi deildarinnar með 18 stig eftir níu leiki, sex stigum á undan Westfalen sem situr í þriðja sæti.