Innlent

Reykja­víkur­borg hyggst skanna milljón teikningar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er formaður borgarráðs. Vísir/Vilhelm

Borgarráð samþykkti að hefja útboðsferli á fyrsta fasa átaks í teikningaskönnun í vikunni. Átakið er gríðarlega umfangsmikið en til stendur að skanna rúmlega milljón teikningar.

Í bókun meirihluta borgarráðs segir að útboðið sé hluti af stafrænu umbreytingarátaki Reykjavíkurborgar. Með átakinu sparist um fjögur þúsund heimsóknir árlega í þjónustuver, enda verði hægt að nálgast teikningar rafrænt.

„Ávinningurinn af þessu átaksverkefni er ótvíræður fyrir alla notendur, íbúa, fagaðila, borgarstarfsmenn og aðra hagaðila. Mikill tími, kostnaður og mengun munu sparast með auknu aðgengi að þessum teikningum, auk þess sem tryggð er langtímavarðveisla teikninganna,“ segir í bókun meirihlutans.

Verkefnið löngu tímabært

Í fyrsta fasa verkefnisins er gert ráð fyrir að fram fari öflun sértæks búnaðar til að skanna stórar teikingar í viðeigandi upplausn. Næsta skref er skráning og lestur gagna og það þriðja er framsetning á vef.

Minnihluti borgarráðs virðist sáttur við átakið og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu verkefnið löngu tímabært í bókun sinni. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, tók í sama streng og sagði „í raun furðulegt,“ að ekki hafi verið ráðist í verkefnið fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×