Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Gummersbach hafa farið vel af stað á tímabilinu en máttu þola tap í kvöld. Lokatölur 40-36 í leik þar sem Elliði Snær Vignisson skoraði sex mörk og Hákon Daði Styrmisson bætti við þremur mörkum.
Gummersbach er enn á toppi deildarinnar með 18 stig þrátt fyrir tap kvöldsins.
Íslendingalið Aue tapaði með níu marka mun gegn Hüttenberg í sömu deild, lokatölur 35-26. Arnar Birkir Hálfdánarson skoraði þrjú mörk í liði Aue og lagði upp fjögur til viðbótar. Sveinbjörn Pétursson átti ekki sinn besta leik í marki liðsins og náði aðeins að verja eitt skot.
Aue er í 14. sæti þýsku B-deildarinnar með átta stig að loknum 11 leikjum.
Ágúst Elí Björgvinsson varði 11 skot er Kolding tapaði naumlega gegn Fredericia í dönsku úrvalsdeildinni, lokatölur 35-33. Kolding er í 12. sæti deildarinnar með sex stig að loknum 11 umferðum.
Í Svíþjóð skoraði Bjarni Ófeigur tíu mörk í eins marks tapi Skövde gegn Alstermo í 8-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar, lokatölur 40-39.