Vegna kórónuveirufaraldursins er aðeins örfáum gestum boðið til þingsetningar. Að guðþjónustu lokinni gengur forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir yfir í Þinghúsið þar sem þing verður sett.
Fyrsta verk nýs þings verður að kjósa kjörbréfanefnd og að því loknu mun undirbúningskjörbréfanefndin, sem hefur verið að störfum undanfarnar vikur, birta greinargerðir sínar varðandi talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi í þingkosningunum sem fóru fram 25. september síðastliðinn.
Að lokinni kosningu í kjörbréfanefnd verður þing rofið og mun það koma aftur saman á fimmtudag þar sem kjörbréfanefnd mun að öllum líkindum leggja tillögur undirbúningskjörbréfanefndar fyrir þingið.
Samkvæmt heimildum fréttastofu felast tillögur undirbúningsnefndarinnar í tvennu, fyrst að samþykkja kjörbréf allra þingmanna nema þeirra sextán, sem annað hvort eru þingmenn í Norðvesturkjördæmi eða jöfnunarþingmenn. Miklar líkur eru þó taldar á að sú tillaga verði felld og þá verði lögð fram tillaga um að samþykkja öll 63 kjörbréfin.
Hægt er að fylgjast með þingsetningu í spilaranum hér að neðan.