Bekkurinn var vígður í gær, 23. nóvember, en hann er að finna í rjóðri í Ferðafélagsreitnum við Skógarhlíðarkrika. Leitast var við að hafa aðgengi að staðnum sem best.
Stuttur göngustígur er frá bílastæðinu að rjóðrinu og var hann þjappaður sérstaklega til að gera hann hjólastólafæran. Fólk sem notar hjólastól eða á erfitt með að ganga langar leiðir getur þarna komist á fallegan og kyrrlátan stað í skóginum.
Sigríður Óladóttir húsgagnasmíðameistari hannaði bekkinn sem var smíðaður í smiðju Skógræktarfélagsins að Elliðavatni. Efniviðurinn er sitkagreni úr Heiðmörk. Enda er viðeigandi að nýta efnivið úr þeim fallega skógi sem vaxið hefur upp í Heiðmörk, þökk sé starfi fólks á borð við Vilhjálm.
Vilhjálmur var framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur í rúman aldarfjórðung - frá 1969 til 1996, en hann hóf störf hjá félaginu 1953. Hann útskrifaðist sem skógræktarfræðingur úr Skógræktarskóla ríkisins vorið 1953 og fór eftir það í náms- og vinnuferð til Alaska. Hann fór síðar í frekara skógræktarnám við Landbúnaðarháskólann í Danmörku.
„Skógræktarfélag Reykjavíkur þakkar Vilhjálmi fyrir að deila afmælisgjöfinni með gestum friðlandsins í Heiðmörk,“ segir í tilkynningu frá félaginu.