Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir fundinn hafa gengið vel í dag en hann hófst klukkan þrjú og lauk upp úr klukkan fimm, þar sem flestir tóku þátt í gegnum fjarskiptabúnað.
Að sögn Sigurðar Inga var góð þátttaka á fundinum og var stjórnarsáttmálinn samþykktur með rétt tæplega 99 prósent atkvæða.
Fundir Sjálfstæðisflokksins hófust klukkan hálf tvö og lauk um klukkan hálf sex. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fundina hafa gengið vel en aðalfundarstaðurinn var í Valhöll. Aðrir tóku þátt í gegnum fjarfundarbúnað og segist Bjarni telja að hlutfall þeirra sem samþykktu sáttmálann hafi verið svipaður og hjá Framsókn en hann var ekki með nákvæma tölu.
Í tilkynningu frá Vinstri hreyfingunni grænu framboði segir að á annað hundrað manns hafi sótt fundinn sem hófst klukkan tvö í dag. Þar af hafi tæplega hundrað verið með atkvæðisrétt sem flokksráðsfulltrúar. Sem áður segir var sáttmálinn samþykktur með um áttatíu prósent atkvæða.
Uppstokkun ráðuneyta og áhersla á loftslagsmál
Ljóst er að nokkrar breytingar hafa orðið á skiptingu ráðuneyta milli stjórnarflokkanna líkt og Innherji greindi frá fyrr í dag.
Þá segir í frétt RÚV að í stjórnarsáttmálanum sé lögð áhersla á loftsslagsmál. Helminga eigi losun Íslands fyrir 2030, samvinna ríkis og sveitarfélaga í malaflokknum verði efld og hálendisþjóðgarður verði stofnaður.
Jafnframt eigi að efla ríkissáttasemjara, setja fram skýra og heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda, einfalda umsóknarferli um dvalarleyfi.
Samkeppniseftirlit og Neytendastofa verði sameinuð og skipuð verði nefnd til að meta ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Fréttastofa verður í beinni útsendingu á Stöð 2 og Stöð 2 Vísi á morgun þegar nýr stjórnarsáttmáli verður undirritaður.