Innlent

Ökumaður stöðvaður með snjóþotu í eftirdragi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hvít breiða lagðist yfir höfuðborgina í gær.
Hvít breiða lagðist yfir höfuðborgina í gær. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann um klukkan 1 í nótt sem var staðinn að því að draga snjóþotu sem ungmenni sat á. Var málið tilkynnt foreldrum og barnavernd.

Þá var ökumaður stöðvaður á stolnu ökutæki en sá reyndist í annarlegu ástandi og gisti fangageymslu.

Það gerðu fleiri en rétt fyrir klukkan 3 barst lögreglu tilkynning um mann í annarlegu ástandi sem reyndist ekki eiga í nein hús að vernda og fékk gistingu í fangageymslu. Þá var einstaklingur handtekinn við innbrot og var hann sömuleiðis vistaður í fangageymslu.

Lögreglu barst einnig tilkynning um leigubílstjóra í vandræðum með farþega en málið var leyst á vettvangi. Þá var einnig tilkynnt um skemmdarverk á aksturshliði í miðborginni og talið mögulegt að ekið hafi verið á hliðið og stungið af. 

Eftirlitsmyndavélar eru á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×