Vinnubrögð sem enginn ætti að sjá Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar 11. desember 2021 09:00 Maðurinn sem hefur gefið út á fjórða tug verka hefur aldrei átt auðvelt með að skrifa. vísir/vilhelm Þórarinn Eldjárn er tvímælalaust einhver ástsælasti höfundur þjóðarinnar. Rithöfundarferill hans fer að teygja sig upp í fimmtíu árin og í ár, á fjörutíu ára afmæli fyrsta smásagnasafns hans, Ofsögum sagt, gefur hann út sitt áttunda smásagnasafn, Umfjöllun. Að því tilefni settumst við niður með skáldinu og fórum yfir ferilinn, hin mismunandi form skáldskapar og þá undarlegu hefð sem hefur skapast í íslenskum fjölmiðlum á síðustu áratugum; að gefa skáldverkum einkunnir í formi stjarna. Ég hef samtalið við skáldið á því að tilkynna því þá merku uppgötvun sem ég gerði rétt áður en ég mætti til leiks á Aleppo Cafe þar sem við höfum mælt okkur mót; hann var fyrsta viðtalsefni mitt fyrir 16 árum síðan þegar ég var að vinna að verkefni í öðrum bekk. Og þessu man Þórarinn vel eftir. „Ég hefði nú aldrei þekkt þig aftur úti á götu en ég man þetta vel.“ Og þegar ég renni aftur yfir gamla viðtalið kemur mér á óvart hve fullorðinslega hann hafði rætt við sjö ára barnið. Kom fram við það eins og hvern annan blaðamann sem var að forvitnast um hans skrif og skáldlegu hugðarefni. Það ætti reyndar alls ekki að koma á óvart enda hefur Þórarinn verið einna þekktastur fyrir barnaljóð sín, sem einkennast af vönduðu orðfæri og orðaleikjum. Þórarinn var fyrsti og eini viðmælandi Fréttablaðs Óttars, sem gaf út eitt tölublað árið 2005. Það náði sér aldrei á strik.vísir/óttar „Barnaljóðin, já. Ég hef verið mikið í þeim.“ Kanntu best við þig í því formi? „Ég kann bara best við mig í öllum skrifum sem ganga vel. Hvort sem það er texti í skáldsögu, smásaga eða ljóð,“ segir Þórarinn. „Það er ekkert eitt sem er í eftirlæti hjá mér.“ Og þú ert væntanlega hrifinn af smásögunni? „Já, ég er það. Og hlýt nú eiginlega að vera það fyrst ég hef haldið svona mikilli tryggð við það,“ segir Þórarinn. Það er algengt mynstur hjá íslenskum skáldum að byrja á ljóðabók, færa sig svo yfir í smásögur og feta sig þannig hægt og rólega að fyrstu skáldsögunni. „Ég á ekkert sérstaklega auðvelt með að skrifa“ „Og margir ílendast þar. En ég hef alltaf haldið tryggð við smásöguna þó svo að ég hafi líka skrifað lengri verk. Þannig, jú, þetta hlýtur að vera eitthvað sem hentar mér. Eða ég vona það allavega. Annars væri þetta kannski bara vottur um alveg hrikalegt dómgreindarleysi.“ Hefur aldrei átt auðvelt með að skrifa Fyrsta verk Þórarins, ljóðabókin Kvæði, kom út árið 1974. Skáldaferillinn fer því að nálgast fimmtugsafmælið, ef miðað er við fyrstu útgáfu þó hann hafi raunar byrjað að yrkja sjö ára gamall, söguljóð upp úr Njálssögu sem þá var lesin í útvarpinu. En hafa vinnubrögðin breyst með árunum? Er þetta kannski bara orðið ansi auðvelt fyrir þig í dag? „Nei, það er það alls ekki. Sko, ég á ekkert sérstaklega auðvelt með að skrifa,“ viðurkennir hann. Þórarinn er lítt hrifinn af stjörnugjöf bókagagnrýnenda.vísir/vilhelm „Ég öfunda þá sem geta bara sest niður og bunað frá sér nokkur hundruð síðum eins og ekkert sé. Ég hef aldrei getað það.“ Þó hafi hann að sjálfsögðu þjálfast mjög í ljóðagerð í gegn um árin: „Þetta er spurning um vinnubrögð. Ég hef stundað ljóðagerð í gegn um allan ferilinn og mjög oft haldið mig við hið háttbundna form. Það er náttúrulega eitthvað sem maður föndrar dálítið við. Maður verður oft var við það hjá þeim sem lesa ljóð sem ég hef samið, rímað og stuðlað og rennur afskaplega vel, þá finnst fólki að þetta sé eitthvað sem hafi bara allt að því næstum gert sig sjálft. En yfirleitt er það aldrei þannig því miður. Skáld eru smiðir Á bak við þetta er oft eitthvað voðalega mikið maus og alls konar vinnubrögð sem maður myndi ekki vilja láta nokkurn mann sjá. Maður er svona eins og smiður sem myndi ekki hleypa neinum inn á vinnustofuna sína, því að þar lægi voðalega mikið af hefilspónum og alls konar flísum og sagi og rusli. Svo hafa smátt og smátt sprottið upp úr því smíðsgripir sem líta bara mjög vel út en þeir hafa yfirleitt ekki stokkið fullskapaðir fram á sjónarsviðið.“ Þar styðst Þórarinn við aldagamla kenningu skálda um eigið listform; skáldið er smiður sem dundar sér við að setja saman verk sín, sagar af þar sem þarf og pússar annað. Upplifir þú skáldskapinn þannig? „Já, mjög. Já, og sérstaklega með þetta háttbundna ljóð. Það er ákveðin kunnátta sem þarf að liggja að baki og maður finnur það mjög oft að ef maður er á bólakafi að yrkja slík ljóð eða ganga frá þeim þá kemst maður í þjálfun,“ segir Þórarinn. Þetta hafi hann sérstaklega upplifað við þýðingar sínar á leikritum Shakespeares, sem eru auðvitað skrifuð í bundnu máli. Og við þær þýðingar sínar hefur hann alltaf notað stuðla og rím að íslenskum sið þó Shakespeare hafi sjálfur ekki þekkt það stílbragð á sínum tíma. „Ég hef oft hugsað hvað það væri nú gott að geta sleppt stuðlasetningunni en ég get það ekki. Vegna þess að þá fer ég alltaf að hugsa um að hafa hana ekki, að það komi ekki eitthvað sem stuðlar ekki eða eitthvað. Ég bara verð að hafa þetta.“ Þetta er auðvitað höfuðeinkenni hins íslenska bragar. „Það er auðvitað fullt af dæmum um það í erlendum kveðskap að þar bregði fyrir stuðlasetningu – en þá er það oftast óvart. Hún er aldrei í neinu kerfi eins og í íslenskum kveðskap. Þetta er það sem við höfum haldið í og er að mínu mati óaðskiljanlegt frá íslenskum kveðskap sem á annað borð er háttbundinn.“ Helvítis stjörnurnar Við víkjum talinu að því eftirlætisumræðuefni blaðamannsins: fjölmiðlum. Þeir spila jú, ákveðið hlutverk í bókmenntaheiminum, með umfjöllun um bækur, viðtölum við höfunda og síðast en ekki síst bókadómum. Hvernig upplifir maður þetta umhverfi sem höfundur? „Já, sko það sem hefur breyst er að hér einu sinni voru kannski fjögur eða fimm dagblöð og þau voru öll með gagnrýnendur í fullu starfi. Núna er þetta kannski meira aukageta hjá blaðamönnum eða þá að fólk sé ræst út fyrir jólin og þá verður þetta oft dálítið eins og færibandaframleiðsla,“ segir Þórarinn. „Svo er það þessi undarlega stjörnugjöf sem er nú sem betur fer eitthvað að byrja að leggjast út af,“ heldur hann áfram en Fréttablaðið lagði til dæmis stjörnugjöf sína niður fyrir jólabókaflóðið og er bókadómur blaðsins um Umfjöllun Þórarins til dæmis stjörnulaus. Því fangar hann. „Stjörnugjöfin hefur þau áhrif að fólk nennir ekki að lesa sjálfan dóminn. Það horfir bara á stjörnurnar og segir: Já, heyrðu þrjár stjörnur… já, já það er nú ekki nógu gott sko. Og hver er eiginlega munurinn á bók sem er svo frábær að hún fái fimm stjörnur og hinni sem fær fjórar og hálfa? Hvað gerði þau úrslitaáhrif að það bættist við þessi hálfa stjarna?“ spyr höfundurinn sig og ég, sem hef skrifað þá nokkra bókadómana með tilheyrandi stjörnugjöf hef alls ekki svarið við þessu. Ríkisútvarpið sinnir skyldu sinni ekki nægilega vel þegar kemur að því að standa vörð um tungumálið. Beisikklí-íslenskan fer í taugarnar á skáldinu.vísir/vilhelm „Svo stundum þegar maður fer að rýna í sjálfa dómana þá er ekki nokkur leið að átta sig á þessu; heyrðu þarna eru fjórar stjörnur en ég sé ekki að höfundur dómsins sé eitthvað sérstaklega ánægður með bókina! Og öfugt – stundum eru stjörnurnar tvær eða þrjár en svo les maður dóminn… Nú, hann hljómar bara helvíti ánægður! Þess vegna er betra að sleppa þessum helvítis stjörnum og þá verða þeir sem hafa áhuga á að vita hvað þessum dómara finnst að lesa dóminn,“ segir Þórarinn. Hann gefur svo enn minna fyrir viðhorf forlaganna til bókadóma. „Það verður oft svo mikið misræmi og tækifærisstefna hjá forlögum, sem nota þessar stjörnur til að auglýsa. Við skulum ímynda okkur krítíker sem hefur gefið einum höfundi eina stjörnu fyrir bók. Allt verður vitlaust og hann er fífl og asni og ég veit ekki hvað. En svo gefur hann annarri bók frá sama forlagi fimm stjörnur. Þá er sko hægt að nota nafnið hans í auglýsingu!“ Engar bækur án jóla Svona er þó jólabransinn. Hann þekkir skáldið vel og verður að sætta sig við órjúfanlegt samband markaðsaflanna og lista í nútímasamfélagi. Hálfgert ofbeldissamband í raun. „En svona er þetta bara, það má hafa ýmsar skoðanir á jólabransanum. En það er auðvitað bara þannig að sama frábæra skáldsagan, sem kemur út fyrsta nóvember, hún getur alveg skipt sköpum fyrir höfundinn ef salan er góð. En ef hún kemur út 1. janúar, og hún er alveg jafn góð þá, þá á hún ekki séns á að fá sömu útbreiðslu,“ segir Þórarinn. „Ég man að einhvern tíma var held ég auglýst: „Engin jól án bóka“. En þá var einhver sem benti á að réttar væri að segja: „Engar bækur án jóla!“ Það væri í raun stefna útgefendanna.“ Verst að gleyma góðri hugmynd Þórarinn er, sem fyrr segir, þekktur fyrir orðaleiki – oft ansi lúmska og sniðuga. „Stundum er verið að gefa í skyn að þetta sé nú ekki alveg nógu gott hjá mér. Að þetta endi sem hálfgerðir brandarar og svona. En þetta er bara hlutur sem að mjög margir höfundar leggja stund á með frábærum árangri.“ Og titill smásagnasafnsins er einmitt einn þessara orðaleikja Þórarins: Umfjöllun. Reykjavík með norðlensk fjöll í bakgrunni.forlagið „Annars vegar er þetta afskaplega látlaus titill. Það er svona allt að því eins og ef að bókin myndi heita Skrif eða Umræðuefni eða eitthvað svoleiðis. En svo er líka orðaleikur þarna sem er dálítið undirstrikaður með kápunni; reykvískt landslag með fjöll í bakgrunni sem eru að norðan,“ útskýrir hann. Og þá er auðvitað búið að umfjalla, skipta um fjöll. „Og í ýmsum sagnanna má finna eitthvað slíkt. Það er búið að umfjalla. Færa eitthvað úr sínu samhengi yfir í annað.“ Smásagnasafnið er þó ekki hugsað fyrir fram sem neins konar heild. „Nei, þetta eru bara sögur sem hafa orðið til á síðustu árum.“ Og hvernig kvikna hugmyndir að efni hjá þér? Ertu alltaf að fá hugmyndir, punktar þær niður og ferð svo að velja úr þeim? „Já, já. Það er mjög algengt og ég held að það gildi fyrir alla höfunda. Maður er sífellt á höttunum eftir einhverju og dettur alls konar í hug. Það getur verið bara einn frasi eða rím eða eitthvað sem maður heyrir. Maður einhvern veginn nóterar allt hjá sér,“ segir hann. „Ég er ekki höfundur sem tekur fyrir einhver ákveðin þjóðfélagsmál“ Hugdetturnar gera ekki boð á undan sér og þá er best að vera alltaf tilbúinn. „Þetta getur gerst hvenær sem er og þá er alveg afskaplega mikilvægt að vera reiðubúinn að skrifa það hjá sér. Því annars gleymir maður því. Það er alveg hræðilegt að hafa fengið rosalega góða hugmynd, vera ekki í aðstöðu til að punkta hana niður hjá sér og gleyma henni svo en muna bara hvað hún var góð. Það er hræðilegt.“ Gerist það oft? „Ég reyni að láta það ekki gerast. En það hefur komið fyrir. Alveg skelfilegt.“ Beisikklí-íslenska En það er mikilvægt að geta leikið sér að tungumálinu. Málið og óendanlegar víddir þess hafa alla tíð átt hug Þórarins. „Jú, ég legg mikið upp úr tungumálinu. Og mér finnst afskaplega mikilvægt varðandi framtíð íslenskrar tungu að við reynum að velta okkur upp úr þessari gleði sem má hafa af því að skoða málið. Hvað það á sér margar víddir og tengingar í allar áttir,“ segir skáldið. „Frekar en að vera að prédika og sífellt að áfellast fólk fyrir að tala ekki nógu gott mál eða jafnvel að láta þannig að það bara þori ekki að tala lengur. Þá held ég bara að maður geti sýnt fram á með eigin sköpun að þarna sé eitthvað sem er hægt að hafa mikla ánægju af. Það finnst mér mjög mikilvægt.“ En hefurðu áhyggjur af stöðu íslenskunnar? Kannski sérstaklega gagnvart enskunni? „Já, ég hef áhyggjur af henni. Og ég hef áhyggjur af að á síðustu árum hafi orðið svona mikil eftirgjöf. Eiginlega í þá átt að sumir líta þannig á að enskan sé bara eins og annað tungumál hér. Maður verður mjög var við þetta á Facebook og í textum hjá fólki að þar koma alls konar setningar og frasar á ensku algjörlega að ástæðulausu þar sem eru til fín íslensk orð yfir það sama. Ég kalla þetta beisikklí-íslensku“ og hlusta alltaf eftir því ef fólk notar mikið beisikklí. Þá svona herpist ég allur,“ segir Þórarinn. Hann er sérstaklega gagnrýninn á það hvernig Ríkisútvarpið hefur staðið sig í þessu. „Það á nú að vera brjóstvörn íslenskunnar og er meira að segja með málstefnu. En maður verður æ oftar var við að það er kannski viðtal í gangi við einhvern sem er enskumælandi og þá kemur oft bara langur kafli á ensku, sem er kannski ekkert þýddur,“ segir hann. „Og eins þegar viðmælendur eru að skjóta inn orðum á ensku, þá kemur alltaf þetta „ef mér leyfist að sletta“ og eitthvert smá samviskubit. Þá finnst mér að viðkomandi fréttamaður eigi að segja: „Nei, þér leyfist það ekki“. Og eins ef einhver kemur með enskan frasa þá eigi þeir sem eru á vegum útvarpsins að spyrja: „Heyrðu hvað þýðir þetta? Beisikklí, hvað þýðir það?“ Því það er fullt af fólki á Íslandi sem kann enga ensku.“ Hvimleitt ástand í heimsfaraldri. Ekki sérlega skapandi fyrir listamenn en gefur höfundum þó tíma til að vinna í gömlum hugmyndum.vísir/vilhelm Tungumálinu stafi mun meiri hætta af ensku en nokkurn tíma af fyrirbærum eins og þágufalli á „röngum“ stað, með sögn sem ætti að taka með sér þolfall. Þórarinn er frekar á bandi þeirra sem hafa verið kallaðir frjálslyndir málfræðingar þegar kemur að þessum málbreytingum, en Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í málfræði við Háskóla Íslands er líklega fremstur í þeirra flokki. „Það er auðvitað alveg rétt að það á ekki að leggja heilt skólakerfi í það að djöflast á þessu. Því, sko, lógíkin í því að einhver sögn taki með sér þágufall en önnur ekki… Þetta eru bara einhverjar venjur sem valda því. Þannig að vissulega finnst mér að það megi alveg tala um þetta en ekki að fara að eyða heilu skólakerfi í að berjast um þetta,“ segir Þórarinn. Hefur enga trú á Covid-sögum En hvernig hefur þjóðfélagið breyst frá því þú fórst að skrifa? Hafa þjóðfélagsbreytingarnar bein áhrif á skrifin? „Ég held það en það gerist ekki með einhverjum einum hætti. Ég er ekki höfundur sem tekur fyrir einhver ákveðin þjóðfélagsmál. Það er ekki þannig að nú ætli ég að skrifa sögu sem tekur af skarið í loftslagsmálum eða tekjuskiptingu eða einhverju svoleiðis. Slík atriði ber samt oft á góma í forbifarten, eins og maður segir. Ef mér leyfist að sletta,“ bætir hann við og hlær. En skáldið sleppur ekki svo auðveldlega. Ég hef að sjálfsögðu tekið til mín ákall hans til fjölmiðlamanna um að standa vörð um tungumálið. Nei, þér leyfist ekki að sletta. Hvað þýðir forbifarten? „Svona á leiðinni sko. En ég er meira gefinn fyrir svona punktathuganir. Það er kannski einhver karakter sem að segir eitthvað, sem síðan segir sína sögu af því sem er að gerast í þjóðfélaginu.“ Þó er hvergi minnst á heimsfaraldur kórónuveiru í Umfjöllun og því fagnar sá sem þetta skrifar. Við sammælumst um að vera búnir að fá hundleið á faraldrinum og öllu tali um hann. Ekki sérlega skapandi umhverfi í dag eða hvað? „Nei, en á móti kemur að höfundar hafa fengið tíma og næði til að fara að vinna í sínum fyrri hugmyndum,“ segir Þórarinn. Ástandið er þó almennt séð ekki sérlega gott fyrir listgreinar. „Ekki nema það kæmi eitthvað mjög bitastætt út úr þessu. En ég hef nú reyndar enga sérstaka trú á því. Því ég held að þegar þetta verði loksins yfirstaðið, sem ég ætla nú að leyfa mér að vona að verði einhvern tímann, þá held ég að skáldsagnahöfundar muni til dæmis ekki gera mikið af því að fara að skrifa einhverjar Covid-sögur.“ Ætli þjóðfélagstrámað af þessu sé kannski ekki nógu mikið? Við höfum auðvitað séð mörg meistaraverk spretta upp úr blóði drifnum jarðvegi styrjalda og hörmunga. „Tja, þetta eru náttúrulega gríðarleg tíðindi og það getur vel verið að í skilvindu tímans komi eitthvað út úr þessu. Ég held í raun að frá því að seinni heimsstyrjöldin geisaði hér á okkar slóðum hafi aldrei gerst neitt sem hafði svona víðtæk áhrif og eigi eftir að vera í sögubókunum. Því þetta kostaði svo miklar breytingar á daglegu lífi. En samt held ég einhvern veginn að þetta verði ekki mjög spennandi efni fyrir skáldsagnahöfunda.“ Og á þeim, kannski örlítið niðurdrepandi nótum ljúkum við okkar samtali við höfundinn þjóðkunna. Vonum báðir að þessu fari að ljúka sem fyrst ekki síst svo listirnar fái notið sín í skapandi umhverfi á ný. Höfundatal Bókmenntir Menning Reykjavík Íslenska á tækniöld Mest lesið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Lifa hægara lífi í New York en á Íslandi Lífið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Rómantík í loftinu hjá Sveindísi Jane Lífið Tæki Brynjar Níels með í bústaðinn Lífið „Sigmundur Davíð gerði ekki shit þegar hann var forsætisráðherra“ Lífið Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku Gagnrýni Bein útsending: Vikulöng þrekraun Einars Lífið Stóð með sjálfri sér og ekki talað við pabba sinn síðan 2015 Lífið Fréttatía vikunnar: Bubbi, Airwaves og kosningar Lífið Fleiri fréttir Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira
Að því tilefni settumst við niður með skáldinu og fórum yfir ferilinn, hin mismunandi form skáldskapar og þá undarlegu hefð sem hefur skapast í íslenskum fjölmiðlum á síðustu áratugum; að gefa skáldverkum einkunnir í formi stjarna. Ég hef samtalið við skáldið á því að tilkynna því þá merku uppgötvun sem ég gerði rétt áður en ég mætti til leiks á Aleppo Cafe þar sem við höfum mælt okkur mót; hann var fyrsta viðtalsefni mitt fyrir 16 árum síðan þegar ég var að vinna að verkefni í öðrum bekk. Og þessu man Þórarinn vel eftir. „Ég hefði nú aldrei þekkt þig aftur úti á götu en ég man þetta vel.“ Og þegar ég renni aftur yfir gamla viðtalið kemur mér á óvart hve fullorðinslega hann hafði rætt við sjö ára barnið. Kom fram við það eins og hvern annan blaðamann sem var að forvitnast um hans skrif og skáldlegu hugðarefni. Það ætti reyndar alls ekki að koma á óvart enda hefur Þórarinn verið einna þekktastur fyrir barnaljóð sín, sem einkennast af vönduðu orðfæri og orðaleikjum. Þórarinn var fyrsti og eini viðmælandi Fréttablaðs Óttars, sem gaf út eitt tölublað árið 2005. Það náði sér aldrei á strik.vísir/óttar „Barnaljóðin, já. Ég hef verið mikið í þeim.“ Kanntu best við þig í því formi? „Ég kann bara best við mig í öllum skrifum sem ganga vel. Hvort sem það er texti í skáldsögu, smásaga eða ljóð,“ segir Þórarinn. „Það er ekkert eitt sem er í eftirlæti hjá mér.“ Og þú ert væntanlega hrifinn af smásögunni? „Já, ég er það. Og hlýt nú eiginlega að vera það fyrst ég hef haldið svona mikilli tryggð við það,“ segir Þórarinn. Það er algengt mynstur hjá íslenskum skáldum að byrja á ljóðabók, færa sig svo yfir í smásögur og feta sig þannig hægt og rólega að fyrstu skáldsögunni. „Ég á ekkert sérstaklega auðvelt með að skrifa“ „Og margir ílendast þar. En ég hef alltaf haldið tryggð við smásöguna þó svo að ég hafi líka skrifað lengri verk. Þannig, jú, þetta hlýtur að vera eitthvað sem hentar mér. Eða ég vona það allavega. Annars væri þetta kannski bara vottur um alveg hrikalegt dómgreindarleysi.“ Hefur aldrei átt auðvelt með að skrifa Fyrsta verk Þórarins, ljóðabókin Kvæði, kom út árið 1974. Skáldaferillinn fer því að nálgast fimmtugsafmælið, ef miðað er við fyrstu útgáfu þó hann hafi raunar byrjað að yrkja sjö ára gamall, söguljóð upp úr Njálssögu sem þá var lesin í útvarpinu. En hafa vinnubrögðin breyst með árunum? Er þetta kannski bara orðið ansi auðvelt fyrir þig í dag? „Nei, það er það alls ekki. Sko, ég á ekkert sérstaklega auðvelt með að skrifa,“ viðurkennir hann. Þórarinn er lítt hrifinn af stjörnugjöf bókagagnrýnenda.vísir/vilhelm „Ég öfunda þá sem geta bara sest niður og bunað frá sér nokkur hundruð síðum eins og ekkert sé. Ég hef aldrei getað það.“ Þó hafi hann að sjálfsögðu þjálfast mjög í ljóðagerð í gegn um árin: „Þetta er spurning um vinnubrögð. Ég hef stundað ljóðagerð í gegn um allan ferilinn og mjög oft haldið mig við hið háttbundna form. Það er náttúrulega eitthvað sem maður föndrar dálítið við. Maður verður oft var við það hjá þeim sem lesa ljóð sem ég hef samið, rímað og stuðlað og rennur afskaplega vel, þá finnst fólki að þetta sé eitthvað sem hafi bara allt að því næstum gert sig sjálft. En yfirleitt er það aldrei þannig því miður. Skáld eru smiðir Á bak við þetta er oft eitthvað voðalega mikið maus og alls konar vinnubrögð sem maður myndi ekki vilja láta nokkurn mann sjá. Maður er svona eins og smiður sem myndi ekki hleypa neinum inn á vinnustofuna sína, því að þar lægi voðalega mikið af hefilspónum og alls konar flísum og sagi og rusli. Svo hafa smátt og smátt sprottið upp úr því smíðsgripir sem líta bara mjög vel út en þeir hafa yfirleitt ekki stokkið fullskapaðir fram á sjónarsviðið.“ Þar styðst Þórarinn við aldagamla kenningu skálda um eigið listform; skáldið er smiður sem dundar sér við að setja saman verk sín, sagar af þar sem þarf og pússar annað. Upplifir þú skáldskapinn þannig? „Já, mjög. Já, og sérstaklega með þetta háttbundna ljóð. Það er ákveðin kunnátta sem þarf að liggja að baki og maður finnur það mjög oft að ef maður er á bólakafi að yrkja slík ljóð eða ganga frá þeim þá kemst maður í þjálfun,“ segir Þórarinn. Þetta hafi hann sérstaklega upplifað við þýðingar sínar á leikritum Shakespeares, sem eru auðvitað skrifuð í bundnu máli. Og við þær þýðingar sínar hefur hann alltaf notað stuðla og rím að íslenskum sið þó Shakespeare hafi sjálfur ekki þekkt það stílbragð á sínum tíma. „Ég hef oft hugsað hvað það væri nú gott að geta sleppt stuðlasetningunni en ég get það ekki. Vegna þess að þá fer ég alltaf að hugsa um að hafa hana ekki, að það komi ekki eitthvað sem stuðlar ekki eða eitthvað. Ég bara verð að hafa þetta.“ Þetta er auðvitað höfuðeinkenni hins íslenska bragar. „Það er auðvitað fullt af dæmum um það í erlendum kveðskap að þar bregði fyrir stuðlasetningu – en þá er það oftast óvart. Hún er aldrei í neinu kerfi eins og í íslenskum kveðskap. Þetta er það sem við höfum haldið í og er að mínu mati óaðskiljanlegt frá íslenskum kveðskap sem á annað borð er háttbundinn.“ Helvítis stjörnurnar Við víkjum talinu að því eftirlætisumræðuefni blaðamannsins: fjölmiðlum. Þeir spila jú, ákveðið hlutverk í bókmenntaheiminum, með umfjöllun um bækur, viðtölum við höfunda og síðast en ekki síst bókadómum. Hvernig upplifir maður þetta umhverfi sem höfundur? „Já, sko það sem hefur breyst er að hér einu sinni voru kannski fjögur eða fimm dagblöð og þau voru öll með gagnrýnendur í fullu starfi. Núna er þetta kannski meira aukageta hjá blaðamönnum eða þá að fólk sé ræst út fyrir jólin og þá verður þetta oft dálítið eins og færibandaframleiðsla,“ segir Þórarinn. „Svo er það þessi undarlega stjörnugjöf sem er nú sem betur fer eitthvað að byrja að leggjast út af,“ heldur hann áfram en Fréttablaðið lagði til dæmis stjörnugjöf sína niður fyrir jólabókaflóðið og er bókadómur blaðsins um Umfjöllun Þórarins til dæmis stjörnulaus. Því fangar hann. „Stjörnugjöfin hefur þau áhrif að fólk nennir ekki að lesa sjálfan dóminn. Það horfir bara á stjörnurnar og segir: Já, heyrðu þrjár stjörnur… já, já það er nú ekki nógu gott sko. Og hver er eiginlega munurinn á bók sem er svo frábær að hún fái fimm stjörnur og hinni sem fær fjórar og hálfa? Hvað gerði þau úrslitaáhrif að það bættist við þessi hálfa stjarna?“ spyr höfundurinn sig og ég, sem hef skrifað þá nokkra bókadómana með tilheyrandi stjörnugjöf hef alls ekki svarið við þessu. Ríkisútvarpið sinnir skyldu sinni ekki nægilega vel þegar kemur að því að standa vörð um tungumálið. Beisikklí-íslenskan fer í taugarnar á skáldinu.vísir/vilhelm „Svo stundum þegar maður fer að rýna í sjálfa dómana þá er ekki nokkur leið að átta sig á þessu; heyrðu þarna eru fjórar stjörnur en ég sé ekki að höfundur dómsins sé eitthvað sérstaklega ánægður með bókina! Og öfugt – stundum eru stjörnurnar tvær eða þrjár en svo les maður dóminn… Nú, hann hljómar bara helvíti ánægður! Þess vegna er betra að sleppa þessum helvítis stjörnum og þá verða þeir sem hafa áhuga á að vita hvað þessum dómara finnst að lesa dóminn,“ segir Þórarinn. Hann gefur svo enn minna fyrir viðhorf forlaganna til bókadóma. „Það verður oft svo mikið misræmi og tækifærisstefna hjá forlögum, sem nota þessar stjörnur til að auglýsa. Við skulum ímynda okkur krítíker sem hefur gefið einum höfundi eina stjörnu fyrir bók. Allt verður vitlaust og hann er fífl og asni og ég veit ekki hvað. En svo gefur hann annarri bók frá sama forlagi fimm stjörnur. Þá er sko hægt að nota nafnið hans í auglýsingu!“ Engar bækur án jóla Svona er þó jólabransinn. Hann þekkir skáldið vel og verður að sætta sig við órjúfanlegt samband markaðsaflanna og lista í nútímasamfélagi. Hálfgert ofbeldissamband í raun. „En svona er þetta bara, það má hafa ýmsar skoðanir á jólabransanum. En það er auðvitað bara þannig að sama frábæra skáldsagan, sem kemur út fyrsta nóvember, hún getur alveg skipt sköpum fyrir höfundinn ef salan er góð. En ef hún kemur út 1. janúar, og hún er alveg jafn góð þá, þá á hún ekki séns á að fá sömu útbreiðslu,“ segir Þórarinn. „Ég man að einhvern tíma var held ég auglýst: „Engin jól án bóka“. En þá var einhver sem benti á að réttar væri að segja: „Engar bækur án jóla!“ Það væri í raun stefna útgefendanna.“ Verst að gleyma góðri hugmynd Þórarinn er, sem fyrr segir, þekktur fyrir orðaleiki – oft ansi lúmska og sniðuga. „Stundum er verið að gefa í skyn að þetta sé nú ekki alveg nógu gott hjá mér. Að þetta endi sem hálfgerðir brandarar og svona. En þetta er bara hlutur sem að mjög margir höfundar leggja stund á með frábærum árangri.“ Og titill smásagnasafnsins er einmitt einn þessara orðaleikja Þórarins: Umfjöllun. Reykjavík með norðlensk fjöll í bakgrunni.forlagið „Annars vegar er þetta afskaplega látlaus titill. Það er svona allt að því eins og ef að bókin myndi heita Skrif eða Umræðuefni eða eitthvað svoleiðis. En svo er líka orðaleikur þarna sem er dálítið undirstrikaður með kápunni; reykvískt landslag með fjöll í bakgrunni sem eru að norðan,“ útskýrir hann. Og þá er auðvitað búið að umfjalla, skipta um fjöll. „Og í ýmsum sagnanna má finna eitthvað slíkt. Það er búið að umfjalla. Færa eitthvað úr sínu samhengi yfir í annað.“ Smásagnasafnið er þó ekki hugsað fyrir fram sem neins konar heild. „Nei, þetta eru bara sögur sem hafa orðið til á síðustu árum.“ Og hvernig kvikna hugmyndir að efni hjá þér? Ertu alltaf að fá hugmyndir, punktar þær niður og ferð svo að velja úr þeim? „Já, já. Það er mjög algengt og ég held að það gildi fyrir alla höfunda. Maður er sífellt á höttunum eftir einhverju og dettur alls konar í hug. Það getur verið bara einn frasi eða rím eða eitthvað sem maður heyrir. Maður einhvern veginn nóterar allt hjá sér,“ segir hann. „Ég er ekki höfundur sem tekur fyrir einhver ákveðin þjóðfélagsmál“ Hugdetturnar gera ekki boð á undan sér og þá er best að vera alltaf tilbúinn. „Þetta getur gerst hvenær sem er og þá er alveg afskaplega mikilvægt að vera reiðubúinn að skrifa það hjá sér. Því annars gleymir maður því. Það er alveg hræðilegt að hafa fengið rosalega góða hugmynd, vera ekki í aðstöðu til að punkta hana niður hjá sér og gleyma henni svo en muna bara hvað hún var góð. Það er hræðilegt.“ Gerist það oft? „Ég reyni að láta það ekki gerast. En það hefur komið fyrir. Alveg skelfilegt.“ Beisikklí-íslenska En það er mikilvægt að geta leikið sér að tungumálinu. Málið og óendanlegar víddir þess hafa alla tíð átt hug Þórarins. „Jú, ég legg mikið upp úr tungumálinu. Og mér finnst afskaplega mikilvægt varðandi framtíð íslenskrar tungu að við reynum að velta okkur upp úr þessari gleði sem má hafa af því að skoða málið. Hvað það á sér margar víddir og tengingar í allar áttir,“ segir skáldið. „Frekar en að vera að prédika og sífellt að áfellast fólk fyrir að tala ekki nógu gott mál eða jafnvel að láta þannig að það bara þori ekki að tala lengur. Þá held ég bara að maður geti sýnt fram á með eigin sköpun að þarna sé eitthvað sem er hægt að hafa mikla ánægju af. Það finnst mér mjög mikilvægt.“ En hefurðu áhyggjur af stöðu íslenskunnar? Kannski sérstaklega gagnvart enskunni? „Já, ég hef áhyggjur af henni. Og ég hef áhyggjur af að á síðustu árum hafi orðið svona mikil eftirgjöf. Eiginlega í þá átt að sumir líta þannig á að enskan sé bara eins og annað tungumál hér. Maður verður mjög var við þetta á Facebook og í textum hjá fólki að þar koma alls konar setningar og frasar á ensku algjörlega að ástæðulausu þar sem eru til fín íslensk orð yfir það sama. Ég kalla þetta beisikklí-íslensku“ og hlusta alltaf eftir því ef fólk notar mikið beisikklí. Þá svona herpist ég allur,“ segir Þórarinn. Hann er sérstaklega gagnrýninn á það hvernig Ríkisútvarpið hefur staðið sig í þessu. „Það á nú að vera brjóstvörn íslenskunnar og er meira að segja með málstefnu. En maður verður æ oftar var við að það er kannski viðtal í gangi við einhvern sem er enskumælandi og þá kemur oft bara langur kafli á ensku, sem er kannski ekkert þýddur,“ segir hann. „Og eins þegar viðmælendur eru að skjóta inn orðum á ensku, þá kemur alltaf þetta „ef mér leyfist að sletta“ og eitthvert smá samviskubit. Þá finnst mér að viðkomandi fréttamaður eigi að segja: „Nei, þér leyfist það ekki“. Og eins ef einhver kemur með enskan frasa þá eigi þeir sem eru á vegum útvarpsins að spyrja: „Heyrðu hvað þýðir þetta? Beisikklí, hvað þýðir það?“ Því það er fullt af fólki á Íslandi sem kann enga ensku.“ Hvimleitt ástand í heimsfaraldri. Ekki sérlega skapandi fyrir listamenn en gefur höfundum þó tíma til að vinna í gömlum hugmyndum.vísir/vilhelm Tungumálinu stafi mun meiri hætta af ensku en nokkurn tíma af fyrirbærum eins og þágufalli á „röngum“ stað, með sögn sem ætti að taka með sér þolfall. Þórarinn er frekar á bandi þeirra sem hafa verið kallaðir frjálslyndir málfræðingar þegar kemur að þessum málbreytingum, en Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í málfræði við Háskóla Íslands er líklega fremstur í þeirra flokki. „Það er auðvitað alveg rétt að það á ekki að leggja heilt skólakerfi í það að djöflast á þessu. Því, sko, lógíkin í því að einhver sögn taki með sér þágufall en önnur ekki… Þetta eru bara einhverjar venjur sem valda því. Þannig að vissulega finnst mér að það megi alveg tala um þetta en ekki að fara að eyða heilu skólakerfi í að berjast um þetta,“ segir Þórarinn. Hefur enga trú á Covid-sögum En hvernig hefur þjóðfélagið breyst frá því þú fórst að skrifa? Hafa þjóðfélagsbreytingarnar bein áhrif á skrifin? „Ég held það en það gerist ekki með einhverjum einum hætti. Ég er ekki höfundur sem tekur fyrir einhver ákveðin þjóðfélagsmál. Það er ekki þannig að nú ætli ég að skrifa sögu sem tekur af skarið í loftslagsmálum eða tekjuskiptingu eða einhverju svoleiðis. Slík atriði ber samt oft á góma í forbifarten, eins og maður segir. Ef mér leyfist að sletta,“ bætir hann við og hlær. En skáldið sleppur ekki svo auðveldlega. Ég hef að sjálfsögðu tekið til mín ákall hans til fjölmiðlamanna um að standa vörð um tungumálið. Nei, þér leyfist ekki að sletta. Hvað þýðir forbifarten? „Svona á leiðinni sko. En ég er meira gefinn fyrir svona punktathuganir. Það er kannski einhver karakter sem að segir eitthvað, sem síðan segir sína sögu af því sem er að gerast í þjóðfélaginu.“ Þó er hvergi minnst á heimsfaraldur kórónuveiru í Umfjöllun og því fagnar sá sem þetta skrifar. Við sammælumst um að vera búnir að fá hundleið á faraldrinum og öllu tali um hann. Ekki sérlega skapandi umhverfi í dag eða hvað? „Nei, en á móti kemur að höfundar hafa fengið tíma og næði til að fara að vinna í sínum fyrri hugmyndum,“ segir Þórarinn. Ástandið er þó almennt séð ekki sérlega gott fyrir listgreinar. „Ekki nema það kæmi eitthvað mjög bitastætt út úr þessu. En ég hef nú reyndar enga sérstaka trú á því. Því ég held að þegar þetta verði loksins yfirstaðið, sem ég ætla nú að leyfa mér að vona að verði einhvern tímann, þá held ég að skáldsagnahöfundar muni til dæmis ekki gera mikið af því að fara að skrifa einhverjar Covid-sögur.“ Ætli þjóðfélagstrámað af þessu sé kannski ekki nógu mikið? Við höfum auðvitað séð mörg meistaraverk spretta upp úr blóði drifnum jarðvegi styrjalda og hörmunga. „Tja, þetta eru náttúrulega gríðarleg tíðindi og það getur vel verið að í skilvindu tímans komi eitthvað út úr þessu. Ég held í raun að frá því að seinni heimsstyrjöldin geisaði hér á okkar slóðum hafi aldrei gerst neitt sem hafði svona víðtæk áhrif og eigi eftir að vera í sögubókunum. Því þetta kostaði svo miklar breytingar á daglegu lífi. En samt held ég einhvern veginn að þetta verði ekki mjög spennandi efni fyrir skáldsagnahöfunda.“ Og á þeim, kannski örlítið niðurdrepandi nótum ljúkum við okkar samtali við höfundinn þjóðkunna. Vonum báðir að þessu fari að ljúka sem fyrst ekki síst svo listirnar fái notið sín í skapandi umhverfi á ný.
Höfundatal Bókmenntir Menning Reykjavík Íslenska á tækniöld Mest lesið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Lifa hægara lífi í New York en á Íslandi Lífið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Rómantík í loftinu hjá Sveindísi Jane Lífið Tæki Brynjar Níels með í bústaðinn Lífið „Sigmundur Davíð gerði ekki shit þegar hann var forsætisráðherra“ Lífið Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku Gagnrýni Bein útsending: Vikulöng þrekraun Einars Lífið Stóð með sjálfri sér og ekki talað við pabba sinn síðan 2015 Lífið Fréttatía vikunnar: Bubbi, Airwaves og kosningar Lífið Fleiri fréttir Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira