Svíþjóð vann Rúmeníu 34-30 fyrr í dag sem þýddi að leikur Noregs og Hollands var upp á sæti í 8-liða úrslitum þar sem Svíþjóð hafði þegar tryggt sér efsta sæti í milliriðli tvö.
Leikur Hollands og Noregs var æsispennandi, staðan var jöfn 17-17 í hálfleik. Í þeim síðari reyndust þær norsku sterkari og sigu þær fram úr undir lok leiks, lokatölur 37-34 Noregi í vil og sæti í 8-liða úrslitum tryggt.
Henny Reistad var frábær í liði Noregs en hún skoraði tíu mörk í leik kvöldsins. Dione Housheer gerði slíkt hið sama í liði Hollands en það dugði ekki til í kvöld.
Frakkland vann öruggan fimm marka sigur á Rússlandi, 33-28, og tryggði sér þar með toppsætið í milliriðli eitt. Frakkland fer áfram í 8-liða úrslit með fullt hús stiga líkt og bæði Danmörk og Spánn.