Sævar hefur gefið út þrjár plötur undir listamannsnafninu S.hel en fjórða platan, Whenever Your’re Ready, kemur út á næsta ári í samstarfi við útgáfurisann Sony. Sú plata verður sú fyrsta sem hann gefur undir eigin nafni.
Sævar hefur tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum og samið fyrir dansverk, stuttmyndir og leikhús og þar á meðal fyrir uppfærslu Mutter Courage eftir Bertolt Brecht í leikstjórn Mörtu Nordal.
„Ég bjó á Akureyri þegar ég var fimm til sex ára og þegar ég kom aftur 2019 til að vinna í Mutter Courage leið mér eins og ég væri kominn heim. Mér líður alltaf vel hér og dáist líka af öfluga menningarlífinu hér í bænum,“ segir Sævar.
Jón Gnarr leikur Skugga Svein eins og fram hefur komið hér á Vísi. Aðrir leikarar eru Björgvin Franz Gíslason, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Sunna Borg, María Pálsdóttir, Árni Beinteinn, Vilhjálmur B. Bragason og Vala Fannell. Marta Nordal leikstýrir verkinu sem frumsýnt verður í næsta mánuði.