Margir íbúar á höfuðborgarsvæðinu vöknuðu við skjálftann í morgun og segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu að upptök skjálftanna hafi verið mun nær höfuðborgarsvæðinu en skjálftar síðustu dagar sem hafa verið talsvert nærri eldstöðvunum í Fagradalsfjalli. „Þessir voru um tíu kílómetra norðaustur af eldstöðvunum. Ekki langt frá Kleifarvatni.“
Í færstu á vef Veðurstofunnar segir að skjálftarnir hafi verið í Trölladyngju, um fjóra kílómetra vestur af Kleifarvatni og að hann hafi fundist vel á höfuðborgarsvæðinu.
Elísabet segir að um sé að ræða svokallaða gikkskjálfta. „VIð höfum verið að sjá þessa gikkskjálfta bæði við Grindavík og við Kleifarvatn. Í gær morgun var einn á svipuðum slóðum, en þessir gikkskjálftar eru út af spennu sem hefur veirð að aukast við Fagradalsfjall vegna kvikusöfnunumar. Þá eykst þrýstingur á svæðinu og þá getur losað um þrýsting talsvert frá. Við sáum talsvert af þessu líka í vor.“
Á jóladag mældust rúmlega þrjú þúsund jarðskjálftar við Fagradalsfjall, sá stærsti 4,2 að stærð klukkan 07:26. Frá því að hrinan hófst hafa um 15 þúsund skjálftar mælst, þar af fjórtán 4,0 eða stærri að stærð.
Fréttin hefur verið uppfærð.