Ekkert helgihald verður í kirkjum landsins um áramótin en Agnes M. Sigurðardóttir biskup tók þá ákvörðun að fella niður allt helgihald í ljósi þess hve veiran dreifir nú hratt úr sér og hversu margir greinast nú smitaðir.
„Segja má að þetta séu tímamót og hafi ekki áður gerst í íslenskri kirkjusögu,“ segir í tilkynningu á vef Kirkjunnar.
Þrátt fyrir að fólk geti ekki verið að staðnum bendir biskup á að hægt sé að fylgjast með streymi frá sóknarkirkjum og helgihaldi sem verður útvarpað á Rás 2.
Á gamlársdag klukkan 18 verður aftansöngur í Hallgrímskirkju í Reykjavík og á nýársdag klukkan 11 mun biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir prédika í Dómkirkju Reykjavíkur. Sunnudaginn 2. janúar mun síðan sr. Sigurður Jónsson prédika í Áskirkju.