„Það er búið að vera mikið stuð á Joe árið 2021 þrátt fyrir allt og allt,“ segir Agla Jónsdóttir, fjármálastjóri Joe & The Juice. Mikið hefur gengið á í veitingarekstri á Íslandi eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á og hafði hann mest áhrif á útibú Joe í Leifsstöð og á Laugavegi.
Staðnum á Laugavegi var lokað á seinasta ári þegar erlendir ferðamenn yfirgáfu miðborgina. Agla segir að rekstur Joe í Leifsstöð sé nú kominn á fullt eftir um átján mánaða lokun en staðirnir voru þeir söluhæstu áður en faraldurinn setti strik í reikninginn.
Bílaþjóðin tekið vel í bílalúgur
Agla segir að flugvöllurinn hafi verið mjög stór hluti af starfsemi keðjunnar frá því að staðirnir opnuðu árið 2014. Reksturinn hafi þó eðlilega verið sveiflukenndur undanfarin misseri.
„Við erum bara nokkuð kát með okkur á þessum tímum, ég hugsa að það séu ekki margir að opna eins marga staði á þessum tíma en okkur hefur lukkast það,“ segir Agla og bætir við að það sé greinilega eftirspurn eftir þeim vörum sem Joe & The Juice hafi upp á að bjóða.
Þá hafi bílalúgustaðirnir við Miklubraut og Reykjavíkurveg vakið mikla lukku meðal Íslendinga og þá ekki síður vegna áhrifa faraldursins.
Aðspurð um miðborgina segir Agla að staðsetningin hafi ráðið mestu um þá ákvörðun að loka á Laugavegi. Í staðinn hafi verið ákveðið að veðja á nálægan stað þeirra á Hafnartorgi.
Hún segir ekki útilokað að Joe muni gera sig heimakominn í og við Laugaveginn á ný en segir að stjórnendur beini nú frekar sjónum sínum að staðsetningum nálægt meiri íbúðabyggð.