Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti þetta við íþróttadeild í gær en vildi ekki nafngreina leikmennina að svo stöddu.
„Staðan á hópnum er ágæt eins og er. Við vitum um tvo leikmenn sem eru smitaðir sem stendur en við eigum von á því að þeir komi báðir til landsins núna um áramótin og verði til taks þegar liðið byrjar æfingar 2. janúar. Aðrir eiga að vera nokkuð heilir heilsu eftir því sem við best vitum,“ sagði Róbert.
Mikið hefur verið um smit í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta og leikjum þar frestað undanfarið. Róbert sagði þó að hingað til hefði skærasta stjarna íslenska liðsins, Aron Pálmarsson sem leikur með Álaborg, sloppið við smit.
Kórónuveirufaraldurinn kemur til með að setja svip á Evrópumótið sem hefst 13. janúar í Ungverjalandi og Slóvakíu, og stendur yfir til 30. janúar. Til að mynda hafa níu leikmenn Frakklands greinst með smit en franska landsliðið átti að hefja undirbúning sinn í gær.
Íslenska landsliðið, sem skipað er 20 leikmönnum, kemur saman til æfinga hér á landi 2. janúar og leikur tvo vináttulandsleiki við Litháen, 7. og 9. janúar, áður en haldið verður til Búdapest. Fyrsti leikur Íslands á EM verður gegn Portúgal 14. janúar.