Körfubolti

Sá yngsti í sögunni til að ná þrennu í NBA-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josh Giddey á ferðinni með boltann í leiknum á móti Dallas Mavericks en til varnar er Dwight Powell.
Josh Giddey á ferðinni með boltann í leiknum á móti Dallas Mavericks en til varnar er Dwight Powell. AP/Sue Ogrocki

Nýliðinn Josh Giddey átti frábæran leik með Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og hafði sett nýtt NBA-met þegar leiknum lauk.

Giddey endaði leikinn með 17 stig, 14 stoðsendingar og 13 fráköst en hann varð þar með sá yngsti í sögu NBA deildarinnar til að ná þrennu í leik.

Giddey bætti þarna met LaMelo Ball. Ball var 19 ára og 140 daga gamall á sínum tíma en Giddey var bara 19 ára og 84 daga gamall í gær.

Giddey varð líka sá yngsti til að vera með flest stig, flest fráköst og flestar stoðsendingar hjá báðum liðum í sama leiknum. Hann bætti þar met Luka Doncic.

Frammistaðan kom þó ekki í veg fyrir tap á móti Dallas Mavericks en Jason Kidd, þjálfari Dallas-liðsins, hrósaði stráknum eftir leikinn.

Kidd var sjálfur með 107 þrennur á sínum ferli.

„Hann er óeigingjarn. Hann skilur hvernig á að spila leikinn þrátt fyrir að vera bara nítján ára gamall. Honum líður vel með boltann og liðsfélagar hans vita að ef þeir hreyfa sig vel þá munu þeir fá boltann. Hann er líka með gott þriggja stiga skot og hefur allan pakkann,“ sagði Jason Kidd.

Josh Giddey fæddist 10. október 2002 í Melbourne í Ástralíu. Hann spilaði aldrei í bandaríska háskólaboltanum en lék eitt tímabil með Adelaide 36ers í áströlsku deildinni áður en Oklahoma City Thunder valdi hann sjöttan í nýliðavalinu 2021.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×