Áður en óundirbúinn fyrirspurnartími hófst á Alþingi í morgun tóku þingmenn stjórnarandstöðunnar hálftíma í umræður um fundarstjórn forseta þar sem þeir kvörtuðu undan því að einungis tveir ráðherrar væru til svara. Samkvæmt þingsköpum ættu þeir að lágmarki að vera þrír.

Loks þegar fyrirspurnartíminn hófst rifjaði Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins upp tíð snjóflóð á Vestfjörðum undanfarin ár. Íbúar á svæðinu hefðu kallað eftir gerð jarðganga milli Súðavíkur og Ísafjarðar. Síðasta sunnudag hefðu snjóflóð fallið úr Súðarvíkurhlíð og litlu munað að illa færi.
„Ég spyr því hæstvirtan ráðherra verða jarðgöng í Súðavíkurhlíð hluti af næstu samgönguáætlun hans. Sem og jarðgöng annars staðar þar sem stórhættulegir vegakaflar eru á Íslandi og fólk er í lífshættu að fara úr og í vinnu,“ spurði Guðmundur Ingi.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði vegabótum hafa verið forgangsraðað eftir áhættusvæðum og þeir staðir væru margir á Íslandi. Til að mynda hafi verið ráðist í tvöföldun á Suðurlands- og Vesturlandsvegi vegna þess að þar væru líkur á banaslysum miklar.
„Og það er ástæðan fyrir þeirri forgangsröðun sem er í núgildandi samgönguáætlun. Við höfum hins vegar sett af stað jarðgangnaáætlun sem Vegagerðin hefur verið að vinna að. Þar á meðal eru að sjálfsögðu jarðgöng við Súðavík. Það eru fleiri jarðgöng sem er verið að horfa í þar. Þessi vinna verður eðlilega hluti af næstu samgönguáætlun,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson
Stefnt væri að því að unnið væri að gerð að minnsta kosti einnra jarðgangna hverju sinni og jafnvel fleiri.
Þingmenn Samfylkingarinnar lögðu hins vegar fram þingsályktunartillög á Alþingi í dag þar sem innviðaráðherra yrði falið að skapa svigrúm fyrir gerð Súðavíkurganga á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi í núgildandi samgönguáætlun 2020– 2034. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um framvinduna fyrir árslok 2022.