Yfirvöld og íbúar Úkraínu óttast að Rússar geri innrás í landið á næstunni og Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, segir Kharkiv mögulega eitt af skotmörkum Rússa. Kharkiv er mikil iðnaðarborg en þar eru meðal annars verksmiðjur þar sem traktorar, skriðdrekar og flugvélar eru framleiddar.
Það eru fleiri sem óttast innrás í Úkraínu en fregnir hafa borist af því að utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hafi skipað fjölskyldum starfsmanna sendiráðsins í Úkraínu að yfirgefa landið.
Um níutíu tonn af hernaðarbirgðum frá Bandaríkjunum bárust til Úkraínu í dag. Þar á meðal eru vopn og skotfæri fyrir menn á víglínunum. Eystrasaltsríkin hafa einnig sagst ætla að senda Úkraínumönnum vopn sem hönnuð eru til að granda flugvélum og þyrlum annars vegar og skriðdrekum hins vegar.
Ráðamenn í Rússlandi segjast ekki ætla að gera aðra innrás í Úkraínu. Þeir krefjast þess að Úkraínu verði meinaður mögulegur aðgangur að NATO í framtíðinni. Þá hafa þeir krafist þess að Atlantshafsbandalagið fjarlægi allar hersveitir og vopn úr Austur-Evrópu.
Kröfurnar hafa náð yfir ríki sem gengu til liðs við NATO eftir árið 1997. Kröfurnar náðu þó ekki fyrr en í gær yfir Rúmeníu og Búlgaríu, sem bæði eru í Atlantshafsbandalaginu. Ríkisstjórnar þeirra landa hafa ekki tekið kröfum vel og segja óásættanlegt að ráðamenn í Rússlandi ætli sé að stjórna utanríkismálum annarra fullvalda ríkja.
Rúmenar sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem kröfur Rússa voru sagðar óásættanlegar og ekki væri tilefni til að ræða þær. Þá sögðu Búlgarar að Rússar ættu að virða utanríkisstefnu Búlgaríu.
Forsvarsmenn NATO hafa sagt að ekki komi til greina að verða við kröfum Rússa.
Sjá einnig: Rússar búast við svörum við kröfum sínum í næstu viku
Hin áðurnefnda Kharkiv er í um 42 kílómetra fjarlægð frá landamærum Rússlands. Blaðamaður Reuters ræddi nýverið við íbúa þar sem segjast margir ætla að berjast gegn Rússum komi til innrásar. Aðrir segjast ætla að flýja.
Igor Terekhov, borgarstjóri, hefur sagt að hann muni aldrei leyfa Rússum að taka borgina, þar sem um 1,4 milljónir manna búa.
Rússar gerðu innrás í Úkraínu árið 2014 og innlimuðu Krímskaga. Þá hafa Rússar stutt dyggilega við bakið á aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu með vopnum og hermönnum. Átökin þar eru talin hafa kostað allt að fimmtán þúsund manns lífið í gegnum árin.
Einn viðmælandi Reuters í Kharkiv sagði líkti stöðunni þá við ástandið núna.
„Engum datt í hug að þetta gæti gerst á Krímskaga. Enginn gat ímyndað sér það. Ég vil ekki trúa því að þetta geti gerst hér en við vitum ekki hvað gerist næst.“