Appelsínugular og gular viðvaranir hafa verið í gildi í dag vegna veðurs. Veðurofsinn er að ganga niður á Suðvesturhorninu en er nú að færa sig norður og suðaustur á land. Mjög hvasst hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í dag, svo hvasst að strompurinn á Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu fór á hliðina. Hann var fjarlægður í dag.

„En það var dálítið athyglisvert að vindurinn, til dæmist úti á Seltjarnarnesi, hann komst í 23 metra á sekúndu. Það er svona með því meira sem að maður sér á þeim stað
Enda var þetta ansi hvasst. Það er hvergi skjól að hafa í þessasri vestanátt á þessum slóðum, hvorki á Suðurnesjum né á höfuðborgarsvæðinu. Maður fær þetta bara beint í nefið,“ sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis í dag.
Það er farið að lægja á suðvesturhorni landsins en sem fyrr segir er veðrið að færa sig um set.
„Í þessum töluðu orðum eru hvorki meira né minna en 33 metrar á sekúndu á bláhæðinni á Holtavörðuheiðinni,“ sagði Einar og bætti því við að búið væri að loka Öxnadalsheiðinni. Reikna má með miklu hvassviðri á suðausturhorni landsins, en þar er appelsínugul viðvörun í gildi fram á nótt.
Öxnadalsheiði: Vegurinn er lokaður vegna veðurs. Næstu upplýsingar um kl 20:30 #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) January 25, 2022
Þar getur vindur farið upp í 40 metra á sekúndu og er varað við að ekkert ferðaveður sé á þessum slóðum næstu klukkutímana.
„Ef að fólk er á ferðinni ýmist vestur á firði yfir heiðarnar og hálsana þangað eða norður í land. Ég myndi bara hinkra og bíða,“ sagði Einar.
„Svo dettur allt í dúnalogn á miðnætti.“
Alls staðar á landinu?
„Já, það gerir það. Þetta fer yfir okkur með látum og klárast bara einn tveir og þrír.