Handbolti

Möguleikar Íslands í dag: Bænir og nagaðar neglur ef strákarnir okkar vinna

Sindri Sverrisson skrifar
Örlögin eru ekki lengur alfarið í höndum Íslendinga eftir grátlegt tap gegn Króötum á mánudaginn.
Örlögin eru ekki lengur alfarið í höndum Íslendinga eftir grátlegt tap gegn Króötum á mánudaginn. EPA-EFE/Zsolt Szigetvary

Ísland gæti enn mögulega orðið Evrópumeistari í handbolta á sunnudaginn en versta mögulega niðurstaða liðsins úr þessu er 9. sæti. Í dag lýkur milliriðlakeppninni og vert að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Ísland mætir Svartfjallalandi í fyrsta leik dagsins, klukkan 14.30, og aðeins með sigri lifir vonin um að fylgja Dönum í undanúrslit. Íslendingar myndu þá þurfa að biðja bænir og naga neglur fram á kvöld og vona að Danir vinni þá Frakka í leik sem hefst ekki fyrr en klukkan 19.30.

Ef að þessi draumur verður að veruleika þá bíður Íslendinga leikur við tvöfalda ríkjandi Evrópumeistara Spánar í undanúrslitum í Búdapest á föstudaginn en Danir myndu þá mæta Svíum.

  • Leikir dagsins:
  • 14.30 Ísland - Svartfjallaland
  • 17.00 Holland - Króatía
  • 19.30 Danmörk - Frakkland

Danir eru öruggir um sæti í undanúrslitum en ef þeir tapa gegn Frökkum í kvöld mæta þeir Spánverjum í undanúrslitum. Þjálfari Dana hefur sagst ætla að gefa leikmönnum hvíld í kvöld en ef til vill telja Danir það einhvers virði að mæta frekar Svíþjóð en Spáni á föstudaginn.

Staðan í milliriðli I á EM. Innbyrðis úrslit ráða stöðu ef tvö eða fleiri lið eru jöfn að stigum.

En ef að Ísland kemst ekki í undanúrslit þá er ekki hægt að líta framhjá því að árangurinn á EM, miðað við allt sem gengið hefur á, er góður. Auk þess gæti reynst dýrmætt fyrir Ísland að lenda í 3. sæti milliriðilsins, sem er lágmarksárangur ef að Ísland vinnur eða gerir jafntefli við Svartfellinga.

Núna gefur fimmta sæti mótsins HM-farseðil

Það er nefnilega þannig að á EM eru þrír farseðlar á HM í boði. Danmörk er þegar komin með farseðil sem heimsmeistari, og Svíþjóð og Pólland sem gestgjafar, svo þau lið taka ekki neinn af farseðlunum þremur.

Eftir magnaðan sigur Svía á Norðmönnum í gær er því ljóst að leikurinn um 5. sæti skiptir máli, því þar verður þriðji farseðillinn á HM í boði nú þegar tvö lið sem eiga HM-farseðil eru komin í undanúrslit.

Noregur mun spila um 5. sætið við liðið sem endar í 3. sæti í milliriðli Íslands, í Búdapest á föstudaginn.

Liðin sem ekki tryggja sér farseðil á HM á Evrópumótinu fara í umspil síðar á þessu ári.

Heimför ef Ísland tapar

Ef að Ísland tapar gegn Svartfjallalandi er liðið úr leik á EM. Ísland gæti þá misst Svartfjallaland upp fyrir sig á innbyrðis úrslitum, og einnig Króata ef þeir vinna Hollendinga í dag, og endað í 4. eða 5. sæti milliriðilsins.

Íslandi yrði í þessu tilviki raðað í 7.,8. eða 9. sæti í lokastöðu mótsins, út frá stigasöfnun og markatölu í samanburði við liðin í 4. og 5. sæti í milliriðli II (Ísland gæti ekki endað í 10. sæti því Rússar enduðu í 5. sæti milliriðils II með 3 stig, stigi minna en Ísland er þegar komið með).


Tengdar fréttir

Dagur og Bjarni á leið til Búdapest

Dagur Gautason, leikmaður Stjörnunnar, hefur verið kallaður til móts við íslenska landsliðið í handbolta, ásamt Bjarna Ófeigi Valdimarssyni, leikmanns Skövde í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×