Handbolti

Nikolaj Jacobsen: Ég skulda Íslandi ekki neitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikolaj Jacobsen, þjálfari Dana, í leiknum á móti Íslandi á EM.
Nikolaj Jacobsen, þjálfari Dana, í leiknum á móti Íslandi á EM. Getty/Jure Erzen

Nikolaj Jacobsen er skítsama um íslenska landsliðið í handbolta og var ekkert að fela það í viðtölum fyrir leiki dagsins á Evrópumótinu í handbolta.

Landsliðsþjálfari Dana er heldur ekki búinn að gleyma því sem gerðist í lokaumferð riðlakeppni síðasta Evrópumóts þegar danska landsliðið sat eftir í riðlinum eftir að Ísland tapaði lokaleik sínum.

Nikolaj Jacobsen ætlar að hvíla lykilmenn sína í dag en Danir eru búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Frakkland og Ísland berjast um hitt sætið.

Vinni Ísland leik sinn á móti Svartfjallalandi þá þurfa þeir danskan sigur á móti Frökkum til að komast í undanúrslitin á kostnað franska liðsins.

„Ég skulda Íslandi ekki neitt og Íslands skuldar mér ekkert heldur. Það voru engin leiðindarskot frá okkar liði þegar við duttum út árið 2020,“ sagði Nikolaj Jacobsen.

Hann er þar að vísa í EM 2020 þegar Ísland var búið að vinna tvo fyrstu leiki sína í riðlinum þar á meðal 31-30 sigur á Dönum. Danir þurftu á íslenskum sigri að halda í lokaleiknum á móti Ungverjum en íslenska liðið var komið áfram.

Eftir að íslenska liðið tapaði 18-24 á móti Ungverjum eftir að hafa verið 12-9 yfir í hálfleik þá áttu Danir ekki lengur möguleika á því að komast áfram. Jacobsen finnur því ekki til með íslenska liðinu núna.

„Svona er þetta bara. Íslendingar komu sér sjálfir í þessa stöðu. Það er auðvitað synd fyrir þá að við þurfum að horfa lengra fram á veginn,“ sagði Jacobsen.

„Ég get samt lofað Íslandi því að allir þeir sextán leikmenn sem ég mun nota í leiknum munu gera allt sitt til þess að vinna leikinn,“ sagði Jacobsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×