„Það var hrikalega erfitt að horfa á þetta. Þetta er eitt mesta svekkelsið á ferlinum hingað til,“ sagð Bjarki Már hundfúll.
„Ég hafði á tilfinningunni að þeir myndu klára þetta og svo fara þeir með þetta á síðustu mínútunum. Ömurlegt að horfa á það. Maður var flatur tilfinningalega eftir leikinn og allir fóru bara inn á sitt herbergi.“
Eðlilega létu strákarnir sig dreyma um að komast í undanúrslit og það vantaði grátlega lítið upp á að það tækist.
„Það sem svíður mest er þessi Króatíuleikur hjá okkur. Ég er ekki alveg kominn í að gíra mig inn á Noregsleikinn en það mun örugglega koma,“ segir Bjarki Már en strákarnir voru þá nýbúnir með sinn fyrsta fund fyrir Noregsleikinn en hugurinn var enn í svekkelsinu. Hægara sagt en gert að rífa sig upp.
„Frá því ég byrjaði að fylgjast með landsliðinu árið 2002 hefur verið draumur að komast í undanúrslit. Þess vegna er þetta hrikalega svekkjandi. Okkur langar að klára þetta mót með sæmd og það er HM-sæti í boði í leiknum. Það kemur að því að maður hugsi um það en ég er ekki alveg kominn þangað.“
Hornamaðurinn spilaði fullkominn leik nýstiginn upp úr Covid-veikindum en viðurkennir að heilsan sé ekki alveg upp á tíu.
„Heilsan er allt í lagi. Ég fann aðeins þreytu í lungunum eftir leikinn þannig að ég er bara góður.“