
Laufey hefur notið mikilla vinsælda í Bandaríkjunum að undanförnu þar sem hún stundaði tónlistarnám í Berklee-tónlistarskólanum í Boston. Laufey fór að vekja athygli vestanhafs eftir að tónlistarkonan fræga Billie Eilish deildi flutningi hennar af lagi Billie, My Future, á Instagram haustið 2020.
Með kveðju Kimmel fylgdi rammíslenskt pylsusinnep frá SS. Og á kortinu stendur: „Laufey, takk fyrir að koma í þáttinn til okkar. Ég vona að þú kunnir að meta þessa sérstöku vöru að heiman.“ Laufey skrifar þá til baka að honum hafi svo sannarlega tekist að koma sér á óvart.
Eins og fyrr segir hefur Laufey notið mikilla vinsælda og hún er nú með tæplega 350 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlinum Tik Tok og 265 þúsund fylgjendur á Instagram. Á tónlistarveitunni Spotify hlusta hundruðir þúsunda á söngkonuna í hverjum mánuði.
Bandaríska stórtímaritið Rolling Stone fjallaði um EP-plötu tónlistarkonunnar í maí í fyrra, þar sem kom fram að flutningur hennar væri bæði ljúfur og lipur.
Hlusta má á stórkostlegan flutning Laufeyjar í þætti Kimmel hér að neðan.