Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir félagið líta á nýjungina sem góðan grunn til að tengja saman vistvæna ferðamáta.
„Það er síðan vilji hjá okkur að þróa þetta lengra í framtíðinni. Til dæmis með því gera leitarvélina í appinu öflugri og fólk geti haft skúturnar inni sem breytu í þeirri leit.“
Einnig eru uppi hugmyndir um að reyna að gera notendum kleift að greiða fyrir Strætó og rafhlaupahjól á sama stað. Guðmundur segir að þessi virkni rými vel við strauma og stefnur í nútíma almenningssamgöngum sem gangi út á að samtvinna og bæta þjónustu vistvænna ferðamáta.

Hægt að fylgjast með loftmengun
Einnig er búið að bæta loftgæðaupplýsingum inn á gagnvirka kortið á vef Strætó og hægt að smella á mælistöðvar til að kanna loftgæði á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og fleiri stöðum.
„Upplýsingar um loftgæði er einnig virkni sem er mér nokkuð hugleikin og mun vonandi hjálpa til við aukna vitundarvakningu um mikilvægi góðra loftgæða,“ segir Guðmundur.
Gildin sem sýnd eru á síðunni eru styrkur svifryks (PM10) og styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) en slíka mengun í þéttbýli má að mestu rekja til bílaumferðar.