Mikil spenna er í Austur-Evrópu um þessar mundir en Rússar hafa komið rúmlega hundrað þúsund hermönnum fyrir víða við landamæri Úkraínu, auk skriðdreka, vopna og flugvéla. Vesturveldin óttast innrás Rússa í landið en Rússar hafa vísað ásökunum á bug.
Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að senda fleiri bandaríska hermenn til Austur-Evrópu vegna ástandsins. Þá hafa Rússar og Bandaríkjamenn meðal annars deilt um ástandið á vettvangi Öryggisráðs sameinuðu þjóðanna en viðræður hafa ekki skilað árangri.
Kristalina Georgieva framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að nóg sé til hjá sjóðnum: „Ef við lendum í þeim aðstæðum að ástandið veldur því að sjóðurinn þurfi að veita aukinn stuðning þá bregðumst við að sjálfsögðu við,“ segir Georgieva og bætir við að sjóðurinn hafi um 700 milljarða Bandaríkjadala til ráðstöfunar.
Georgieva vonar að ástandið leysist sem fyrst, samkvæmt frétt Reuters, og leggur áherslu á að lýðræðisleg lausn finnist á málinu. Það sé mikið í húfi fyrir úkraínsku þjóðina og áhrifa muni gæta víðast hvar annars staðar í heiminum. Raforkuverð hafi strax hækkað mikið í Evrópu og verðbólga geti aukist vegna ástandsins.