Unnar er fæddur árið 1989 og útskrifaðist frá Florence University of Arts á Ítalíu árið 2013. Í gegnum verk sýningarinnar skoðar Unnar vörður og verndara öryggis á almannafæri, í náttúrunni eða út á sjó. Þessi listamaður notast gjarnan við náttúrulega liti í verkum sínum ásamt appelsínugulum lit, sem sker sig úr. Blaðamaður heyrði í Unnari og fékk að heyra nánar frá sýningunni og hans hugarheimi.

Ævintýri af sjónum
„Innblásturinn held ég að komi frá mörgum stöðum í einu. Til dæmis frá því þegar ég var krakki, þá fannst mér spennandi að hlusta á afa segja sögur af því þegar hann var sjómaður, að berjast við hákarla og eitthvað algjört rugl,“ segir Unnar en himinn, neon og haf eru ríkjandi þemu á þessari sýningu.
„Svo eru minningar frá því að maður var á ströndinni sem barn, þá sögðu mamma og pabbi að baujurnar eða belgirnir, sem afmarka hvar er öruggt að synda, væru í rauninni eins og hlið út í sjó. Fyrir aftan þessa línu byrjar hættulegur sjórinn. Sem maður tengdi við ævintýra sögurnar hans afa.“
Unnar segist hafa verið mjög trúgjarnt barn og því auðveld að fara á flug í hugmyndum út frá ævintýralegum sögum. Hann hefur lengi velt því fyrir sér hvað þessi afmörkun eða lína þýði, sem á ekki bara við um sjóinn þar sem þetta er notað út um allt. Þaðan kemur appelsínuguli liturinn í listsköpun hans.
„Til dæmis umferðakeilur, vindtúður baujur og belgir, oftast líka appelsínugult!“

Að brjóta upp afmörkunina
Á sýningunni er Unnar til dæmis með seríu sem samanstendur af tuttugu málverkum sem er raðað upp í tvær línur. Fjórar myndir í senn mynda hring í miðjunni sem verður að einhvers konar bauju, neti eða línu en eftir opnun og á meðan að sýningunni stendur gefst gestum tækifæri á að snúa einni mynd í aðra átt.
„Þá geta gestir sýningarinnar brotið upp þessa afmörkun og út frá því myndast lífrænt mynstur sem breytist yfir sýninguna.“
Nafn sýningarinnar kemur svo frá því sem öryggishlutir á borð við baujur, keilur og skilti eiga oftast sameiginlegt.
„Þetta er hannað til þess að sjást, þannig hlutirnir kalla: Sjáðu mig!“