Sport

Háværa litla frænkan í stúkunni fékk að eiga verðlaunapening Katrínar Tönju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir var ánægð með litlu frænku sína Snædísi Hebu.
Katrín Tanja Davíðsdóttir var ánægð með litlu frænku sína Snædísi Hebu. Instagram/@katrintanja

Katrín Tanja Davíðsdóttir er flutt aftur heim til Íslands og hún byrjaði Íslandsdvölina vel þegar hún fagnaði sigri á Reykjavíkurleikunum um helgina.

Instagram/@katrintanja

Katrín Tanja og liðsfélagi hennar André Houdet frá Danmörku höfðu þar betur á móti Anníe Mist Þórisdóttur og liðsfélaga hennar Khan Porter frá Ástralíu.

Katrín Tanja var ánægð með stuðninginn í stúkunni og þá sérstaklega frá litlu frænku sinni Snædísi Hebu.

Snædís Heba er að verða þriggja ára seinna í þessum mánuði og er dóttir yngri systur Katrínar Tönju, Hönnuh Davíðsdóttur.

„Það besta við gærdaginn var að þessi litla stelpa mín var að hvetja mig áfram. Hún var án efa sú háværasta í stúkunni, alltaf að reyna að gera það sem ég var að gera og kalla: Áfram Katrín,“ skrifaði Katrín Tanja Davíðsdóttir.

„Ég ákvað því að gefa henni verðlaunapeninginn minn eftir mótið og sagði að hún væri sú besta. Hún var sammála mér,“ skrifaði Katrín Tanja.

Það má sjá þessa færslu Katrínar hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×