Innlent

Ó­venju­lega gæfur hrafn gefur frá sér ein­kenni­leg ástar­hljóð

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hrafninn var á vappi í Lágmúlanum í dag þegar við rákumst á hann.
Hrafninn var á vappi í Lágmúlanum í dag þegar við rákumst á hann. vísir/sigurjón

Varpstofn hrafna í Reykjavík hefur stækkað töluvert á síðustu árum. Fuglarnir para sig á þessum árstíma og eru því mjög áberandi í borginni. Við hittum ungan hrafn í leit að ást en hann fann í staðinn góðan vin í fréttamanni okkar.

Hrafninn hittum við ó­vænt í Lág­múlanum í dag þar sem frétta­stofa var stödd í öðrum erinda­gjörðum. Hann var með ein­dæmum gæfur eins og sjá má í mynd­bandinu sem fylgir fréttinni.

Hann vakti mikla lukku meðal veg­far­enda á svæðinu.

Ungir hrafnar eru óttalegir kjánar

Við leituðum til sér­fræðings til að ræða hrafna­lífið í borginni eftir kynni okkar af hrafninum í Lág­múla.

En eru hrafnar orðnir gæfari í dag en áður?

„Fyrst og fremst meta þeir svona bara hvar er hætta á ferð. Hérna innan borgarinnar eru þeir nú varla of­sóttir og þeir geta verið mjög spakir og sér­stak­lega ef ein­hvers ætis er von. En svo geta sumir hrafnar verið miklu styggari,“ segir Kristinn Haukur Skarp­héðins­son, dýra­vist­fræðingur hjá Náttúru­fræði­stofnun.

Kristinn segir hrafnana einhverja gáfuðustu fugla sem fyrirfinnast.vísir/sindri

Og þarna getur aldur fuglanna spilað inn í.

„Ungir hrafnar eru til dæmis eru fyrstu mánuðina bara asnar og miklir kjánar en þeir læra nú fljótt á lífið,“ segir Kristinn Haukur.

Þannig ég hef lík­lega hitt einn svona kjána eða hvað?

„Já, væntan­lega,“ segir Kristinn Haukur og hlær við.

Hrafninn vakti mikla lukku vegfarenda. Á tímabili var nokkur hópur búinn að safnast að honum en hér sést ferðamaður mynda hann.vísir/sigurjón

Koma í bæinn á veturna

Hann segir hrafnana ein­stak­lega skemmti­leg dýr og taldir meðal þeirra gáfuðustu á­samt páfa­gaukum og krákum.

Varp­stofn hrafna í borginni hefur stækkað sam­hliða fjölgun trjáa og nú­verpa hér tugir para.

Á veturna sækja hrafnar úr ná­granna­sveitar­fé­lögum hins vegar í borgina í leit að æti og til að para sig. 

Þeir geta verið í hundraða­tali í Reykja­vík á veturna.

Hrafninn ungi. Sá gaf frá sér einkennileg hljóð eða að minnsta kosti ekki það hefðbundna krunk sem flestir tengja við hrafna.vísir/sigurjón

Ekkert venjulegt krunk

En hljóðin í hrafninum sem við hittum í dag vöktu mikla at­hygli okkar og veg­far­enda. Það var ekki það venju­lega krunk sem flestir tengja við hrafninn. Við spurðum Kristinn út í það:

„Hrafnarnir gefa frá sér mjög merki­leg og marg­vís­leg hljóð. Þeir eru að parast á veturna. Þeir parast í þessum geld­hrafna­flokkum þannig sumt af þessum hljóðum eru kannski ástar­kvak,“ segir hann og líkir eftir einu af hljóðum hrafnsins, lík­lega því sem við heyrðum í dag. Við bendum les­endum enn og aftur á mynd­bandið sem hér fylgir fréttinni, sem sýnt var í Kvöld­fréttum Stöðvar 2 í dag.

Hvort ástar­kvak hrafnsins hafi beinst að frétta- og töku­manni verður ekki full­yrt um hér en eitt er víst að hann vitrist að minnsta kosti ansi hrifinn af okkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×