Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi þar sem segir að fresta þurfi aðgerðum fram eftir degi.
„Aðgerð á Þingvallavatni frestast fram eftir degi a.m.k þar sem ís á vatninu hamlar því að prammi komist út að þeim stað þar sem flugvélin liggur. Nú er nærri logn og verður beðið átekta þar til vindur fer að hreyfa við ísnum,“ segir í tilkynningunni.
Fimbulkuldi er á Þingvöllum en þar mældist tuttugu stiga frost í morgum. Um tíu gráðu frost er á staðnum þessa stundina.
Eins og við sögðum frá í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær er aðgerðin umfangsmikil.
Ríflega tuttugu kafarar koma að því að ná þeim sem fórust með flugvélinni í Þingvallavatni og flugvélinni sjálfri upp á yfirborðið. Aðgerðin, sem átti að hefjast í morgun en hefur nú verið frestað er mjög flókin þar sem kafarar geta ekki athafnað sig nema í örfáar mínútur á svo miklu dýpi og kulda.
Unnið var að því í gær að setja upp búnað og aðstöðu við Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni. Yfir fimmtíu manns munu taka þátt í aðgerðinni, sem mun frestast fram eftir degi.