Mikið jafnræði var með liðunum lengst af í fyrri hálfleik, en þegar fór að nálgast hléið fóru heimamenn í Melsungen að síga fram úr. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn orðinn fjögur mörk, staðan 14-10.
Síðari hálfleikur var svo nokkuð sveiflukenndur. Melsungen skoraði fyrstu fimm mörk hálfleiksins, en gestirnir í Balingen næstu fimm. Heimamenn náðu þó aftur níu marka forskoti og unnu að lokum öruggan sjö marka sigur, 28-21.
Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen og Alexander Petersson tvö, en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað. Daníel Þór Ingason skoraði eitt mark fyrir Balingen.
Melsungen situr nú í sjötta sæti deildarinnar með 22 stig eftir 19 leiki, en Balingen er enn í næst neðsta sæti deildarinnar með níu stig.
Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen björguðu stigi þegar liðið tók á móti Erlangen. Lokatölur urðu 26-26, en Ljónin skoruðu seinustu þrjú mörk leiksins.
Þá unnu Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg öruggan tíu marka sigur gegn Hannover-Burgdorf, 30-20, og topplið Magdeburg með þá Ómar Inga Magnússon og Gísla Þorgeir Kristjánsson innanborðs seig fram úr Lubbecke á lokametrunum og vann öruggan tíu marka sigur, 30-20.