Það voru liðsmenn West Ham sem skoruðu fyrsta markið á 10. mínútu. Það var beint eftir handritinu, löng sending fram á Jarrod Bowen sem skoraði smekklegt mark með vinstri fæti framhjá Kasper Schmeichel í liði Leicester.
Leicester jafnaði rétt fyrir hálfleikinn. Á 45. mínútu fengu Leicester vítaspyrnu þegar að dæmt var hendi á leikmann West Ham eftir hornspyrnu. Úr vítinu skoraði Youri Tielemans af miklu öryggi. 1-1 staðan í hálfleik og ljóst að þessi leikur gat dottið á hvorn veginn sem var.
Ricardo Pereira skoraði annað mark Leicester á 57. mínútu eftir frábæran undirbúning frá Harvey Barnes. Skallinn líka góður hjá Pereira upp í vinkilinn.
Það var svo Craig Dawson sem tókst að jafna leikinn í uppbótartíma með skalla eftir hornspyrnu frá Bowen. 2-2 sennilega sanngjörn úrslit í bráðskemmtilegum leik. West Ham situr í fjórða sæti deildarinnar eftir leikinn en Leicester í því ellefta.