Sport

Óveðrið reif þakið af O2 höllinni í London

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þak O2 hallarinnar í London er illa farið eftir óveðrið sem hefur geysað þar í landi.
Þak O2 hallarinnar í London er illa farið eftir óveðrið sem hefur geysað þar í landi. Rob Pinney/Getty Images

O2 höllin í London hefur verið heimili margra stórra tónlistar- og íþróttaviðburða landsins seinustu tuttugu ár, en þak hallarinnar varð fyrir miklum skemmdum í óveðrinu sem geysaði á sunnanverðum Bretlandseyjum í gær.

Höllin var byggð árið 2000 og hét upphaflega Millennium Dome, en þakið er í raun risavaxið tjald sem strengt er yfir höllina. Vindhviður upp á 35 m/s reyndust tjaldinu hins vegar ofviða.

Fjöldinn allur af stórum íþróttaviðburðum hafa verið haldnir í O2 höllinni. Þar á meðal leikir í NBA-deildinni í körfubolta, úrvalsdeildin í pílukasti, nokkrar greinar á Ólympíuleikunum í London árið 2012, sem og greinar á Ólympíuleikum fatlaðra sama ár.

Þá hafa áhorfendur einnig getað séð bardagakvöld í UFC í höllinni. Alls hafa ellefu bardagakvöld verið haldin í O2 hingað til, en þann 19. mars stendur til að UFC snúi aftur til Lundúna.

Brasilíski bardagamaðurinn Cláudio Silva greindi frá því á dögunum að hann myndi mæta okkar eigin Gunnari Nelson það kvöld í O2 höllinni, en eins og gefur að skilja er höllin lokuð þessa dagana á meðan að reynt er að gera við skemmdirnar.

Það verður því fróðlegt að sjá hvort að hægt verður að halda bardagakvöldið í höllinni á tilsettum tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×