Ásamt myndlistinni er Þorsteinn menntaður arkitekt frá arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn, meðeigandi á arkitektastofunni Ask Arkitektar, mikill áhugamaður um jazz og er sjálfur tónskáld og píanóleikari. Það má því með sanni segja að ólíkir listmiðlar vinni saman í hugarheimi þessa listamanns en nú sýnir hann ný verk sem hann vann sérstaklega fyrir þessa sýningu á undanförnum mánuðum.
Listaverk Þorsteins hafa sterka hrynjandi og litaflæði þar sem formin dansa á striganum, sem mætti tengja við áhuga hans á tónlistinni. Blaðamaður hafði samband við Þorstein og fékk að heyra nánar frá sýningunni.

Kontrastar náttúrunnar
Þorsteinn hefur lengi vel kannað samhengið á milli þessara listgreina út frá ryþma og litagleði og segist sjá samsetninguna á milli listmiðlanna. Allt byrjar þetta á auðum fleti, hvítum nótum, hvítum striga eða hvítu auðu blaði. Litagleði einkennir sýninguna Dans litanna og vinnur Þorsteinn með bjartari og ljósari liti en oft áður með sterkum andstæðum. Sækir hann meðal annars í skilin á milli kaldra og heitra flata, til dæmis hvernig veturinn og vorið mætast eins og við Íslendingar upplifum svo sterkt á þessum árstíma.
„Verk sýningarinnar eiga mikla tengingu við náttúruna hér heima sem er engri lík. Þaðan koma kontrastar í litum og formum.“
Jafnvægi og ólíkir listmiðlar
Tónlistin spilar einnig veigamikið hlutverk þar sem Þorsteinn segir mikilvægt að hlusta á tónlist þegar hann málar. Hljóðin kalla fram hinar ýmsu tilfinningar. Honum þykir erfitt að segja til um hvaða listmiðill sé skemmtilegastur eða bera þá saman og segir einfaldlega það skemmtilegasta vera það sem hann er að gera þá stundina. Allt vinnur þetta vel saman í sköpunargleðinni, arkitektúrinn, myndlistin og tónlistin og jafnvægið er mikilvægt.
Sökum faraldursins segir Þorsteinn að sýningin eigi sér nokkuð langan aðdraganda. Vonin helst oft í hendur við vorið að mati blaðamanns og opnar sýningin á árstíma þar sem hver auka mínúta af dagsbirtu veitir gleði.
„Nú erum við að fara inn í bjartari tíma í takt við hækkandi sól, þar sem vorið fer að koma og við erum vonandi laus við Covid.“
Tilfinningin ræður förinni
Þorsteinn vinnur mikið með hið óráðna og lætur tilfinninguna ráða förinni. Í upphafi byrjar hann með hvítan striga og hefur ekki fyrirfram ákveðna hugmynd um hvað það er sem hann vill mála, en málar með tilfinningunni og gleymir sér í augnablikinu. Í þessari sýningu er hann frjálsari í tjáningu en áður og leysir formin meira upp svo að myndlistin verður óhlutbundnari.
Samkvæmt Þorsteini er mikilvægt að fólk hafi frelsi til að upplifa og túlka verkin á eigin hátt. Sumir sjá einhver áhrif, aðrir fígúrur og allt þar á milli. Honum þykir skemmtilegt hvernig fólk getur séð eitthvað nýtt hverju sinni, þrátt fyrir að tiltekið verk hafi verið heima hjá þeim lengi. Það sé mjög gefandi þegar fólk tekur verkunum vel.
„Það rekur mann áfram að halda svona sýningar. Ferlið getur verið svolítið stressandi, að klára allt. En svo kemur uppskeran og henni fylgir spenningur um hvernig allt muni ganga.“
Síðasta einkasýning Þorsteins var í Gallerí Fold árið 2018, auk nokkurra samsýninga. Hann hefur sýnt víða undanfarna áratugi bæði hér heima og erlendis. Sýningunni Dans litanna lýkur 12. mars næstkomandi.