Á blaðamannafundi eftir heimsókn að landamærum Rúmeníu og Úkraínu sagði Johansson að Evrópusambandið þyrfti að vera undir það búið að milljónir manna myndu flýja frá Úkraínu.
Vonir eru bundnar við það að innanríkisráðherrar aðildarríkjanna komist að samkomulagi síðar í vikunni um að virkja tímabundin verndarákvæði ESB.
Ákvæðið sem um ræðir var teiknað upp eftir stríðið á Balkanskaga á tíunda áratuginum og er því ætlað að bregðast við gríðarlegum fólksflutningum en ákvæðið hefur aldrei verið virkjað.
Sameinuðu þjóðirnar áætla nú að rúmlega hálf milljón manna hafi flúið heimili sín vegna stríðsátakanna í Úkraínu eftir innrás Rússa. Hörð átök eru enn víða í landinu, en Rússar hafa meðal annars ráðist á stórborgir á borð við Kænugarð. Kharkív og Tsjernihív.
Stærstur hluti flóttamannanna hefur lagt leið síðna í vestur og hafa margir freistað þess að komast til Póllands, Slóvakíu og Ungverjalands.
Friðaviðræður milli Rússa og Úkraínumanna standa nú yfir en fylgst er náið með stöðu mála í vaktinni hér á Vísi.