Breska Guardian og fjöldi ástralskra fjölmiðla greina frá þessu, en óvissa hefur ríkt um framtíð þáttanna eftir að Channel 5 greindi frá ákvörðun sinni fyrr á árinu.
Ljóst má vera að þetta er mikil harmafregn fyrir marga, enda hafa þættirnir notið mikilla vinsælda víða um heim og þar með talið hér á landi. Þættirnir hafa verið á dagskrá Stöðvar 2 um margra ára skeið.
„Það er með mikilli sorg að við staðfestum að eftir 37 ár og nærri níu þúsund sýnda þætti, þá verður framleiðslu Nágranna hætt í júní,“ segir talsmaður Fremantle. „Í kjölfar þess að hafa misst breskan lykilsamstarfsaðila við framleiðslu, og þrátt fyrir leit að annarri fjármögnun, þá eigum við enga annan möguleika en að hvíla þættina.“

Í þáttunum er sagt frá ástum og örlögum íbúa við götuna Ramsay Street í bænum Erinsborough.
Talsmaður Fremantle segir að nú þegar þessum kafla Ramsay Street er á enda þá heitir fyrirtækið því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að veita þáttunum þá kveðjustund sem þeir eiga skilið.
Fjölmargir ástralskir leikarar hafa stigið sín fyrstu spor í leiklistinni í Nágrönnum til að síðar verða heimsstjörnur. Má þar nefna leikara og leikkonur á borð við Guy Pearce, Margot Robbie, Kylie Minouge, Holly Valance, Delta Goodrem og Jason Donovan.
Channel 5 hafði fjármagnað framleiðslu þáttanna síðan 2008.
Fyrsti þáttur Nágranna var sýndur 18. mars 1985, en sjónvarpsstöðin Seven hætti framleiðslunni skömmu síðar, áður en þættirnir slógu í gegn á heimsvísu. Það gerðist eftir að sjónvarpsstöðin Ten ákvað að halda framleiðslunni áfram árið 1986.