Fréttakona sést framan við flugskýlið, sem „Mriya“ var í, lýsa undir sprengjudrunum skemmdum á Antonov-flugvellinum við bæinn Hostomel. Greinilega má sjá á eyðileggingunni að þar hafa mikil átök verið þegar rússneski herinn náði flugvellinum á sitt vald af Úkraínumönnum um síðustu helgi.
Antonov-risaþotan sést liggja á maganum inni í flugskýlinu. Skrokkur hennar, þar á meðal flugstjórnarklefinn, er illa farinn og báðir vængir fallnir af. Stélið og aftasti hluti hennar virðast hafa skemmst minnst.

Helsta vonarglæta flugheimsins, um að sjá Antonov 225-ferlíki fljúga á ný, virðist núna vera það sem átti að verða eintak númer tvö. Þeir skrokkhlutar eru til í Úkraínu, ósamansettir, í flugskýli hjá Antonov-flugvélaverksmiðjunum.
Fréttamyndskeiðinu af ónýtri Antonov-þotunni hefur verið dreift á samfélagsmiðlum:
Russian State TV report from Gostomel Airport in Kyiv. Sadly An-225 completely destroyed. pic.twitter.com/9kN04Gkz91
— Aldin 🇧🇦 (@aldin_ww) March 4, 2022
Segja má að „Mriya“ , eða Draumurinn, hafi verið Íslandsvinur því hún millilenti nokkrum sinnum á Keflavíkurflugvelli, íslenskum flugáhugamönnum til ómældrar ánægju.